Það styttist óðum í frönsku forsetakosningarnar. Þeir frambjóðendur sem flestir horfa til eru Nicholas Sarkozy, innanríkisráðherra frambjóðandi UMP (sem ég fjallaði um síðasta sumar í þessari grein) og Segoléne Royal frambjóðandi Sósíalistaflokksins (sem Deiglan fjallaði um nýlega).
Frá því í miðjum Janúar hefur Sarkozy sýnt örugga forystu í 23 könnunum í röð. Royal sem var kannski öðru fremur kjörin sem forsetaframbjóandi Sósíalista vegna þess að skoðanakannanir gáfu til kynna að hún ætti mesta möguleika á að sigra Sarkozy hefur lent í miklum erfiðleikum með að sýna hvernig hún ætli að koma Frakklandi aftur í fremstu röð á meðal þjóða heims.
Vandamálin sem sigurvegarinn mun standa frammi fyrir eru ærin. Atvinnuleysið í Frakklandi hefur verið í kringum 8% í langan tíma. Ástandið er verra hjá yngra fólki þar sem það fer yfir 20% hjá ákveðnum árgöngum. Frönsk stórfyrirtæki láta erlendan rekstur greiða niður taprekstur í heimalandinu.
Afleiðing þessa mikla atvinnuleysis virðist vera að lausnarorð margra frakka sé “öryggi” Það skiptir fólk s.s. meira máli að það sé öruggt um vinnu frekar en að færri séu atvinnulausir. Þessi skoðun kom í ljós á síðasta ári þegar CPU (contrat premier embauche) löggjöfin sem Dominique de Villepin,forsætisráðherra, lagði til var mætt með verkfalli háskólanema og fjöldamótmæla út á götu.
Samningurinn gekk út á það að fyrirtæki sem réði starfsmann sem var undir 26 ára mátti segja honum upp á fyrstu tveimur árunum án þess að hafa skýra ástæðu. Löggjöfin hefði nær örugglega minnkað atvinnuleysi með því að auka möguleika atvinnurekenda til þess að prófa starfsfólk eða bæta við sig starfsfólki eftir þörfum, en fólki fannst atvinnuöryggið mikilvægara. Deiglan fjallaði um þennan samning á sínum tíma í þessari grein.
Á meðal annarra veikleika Frakklands er hin arfaslaka hugmynd um 35 stunda vinnuviku sem minnkar til muna möguleika fyrirtækja til þess að mæta sveiflum í eftirspurn eftir þeirra vöru og þjónustu. Einnig er lífeyriskerfið nær gjaldþrota og skuldir ríkissjóðs eru um 65% af landsframleiðslu.
Lausnir Royals og Sarkozys eru mjög ólíkar. Sarkozy vill lækka skatta og auðvelda fyrirtækjum starfsemi sína og koma þannig hagkerfinu af stað og auka velferð landsmanna.
Royal hefur lagt áherslu á að auka velferð almennings beint frá ríkinu: hækka lágmarkslaun, hækka atvinnuleysisbætur upp í 90% af síðustu launum, hækka ellilífeyrir um 5% og þjóðnýta EDF og GDF stærstu rafmagns og gasfyrirtæki Frakklands.
Það verður spennandi að sjá hvort Sarkozy muni takast að telja frönsku þjóðina á að velja leið aukins frelsis. Hin leiðin hefur verið reynd og Frakkland sat eftir á meðan nágrannaþjóðir eins og Bretland hafa blómstrað.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021