Ísland stenst prófið um jöfnuð

Nýleg úttekt Hagstofunnar á tekjudreifingu Íslendinga bendir til þess að hér sé jöfnuður með því mesta sem þekkist í Evrópu. Rannsóknin var liður í samræmdri lífskjararannsókn í Evrópu og hljóta, ásamt mikilli kaupmáttaraukningu, að gefa vísbendingar um að við séum á réttri leið, þó stjórnarandstaðan virðist vera á öðru máli.

Nýleg úttekt Hagstofunnar á tekjudreifingu og tekjubilum meðal Íslendinga bendir til þess að hér sé jöfnuður meðal manna með því mesta sem þekkist í Evrópu. Þetta eru athyglisverðar niðurstöður sem ásamt auknum kaupmætti almennings gefa vísbendingar um að við séum á réttri leið. Það myndi óneitanlega varpa ákveðnum skugga á þær stórstígu framfarir sem orðið hafa hér á landi undanfarin ár og þá gífurlegu kaupmáttaraukningu sem almenningur hefur notið, ef ágóðinn af þessum breytingum endaði í vösum örfárra. Breytingar leiða varla til framfara í þjóðfélaginu nema þær komi þorra almennings til góða.

Í rannsókn Hagstofunnar, sem er hluti af samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins, eru könnuð lágtekjumörk og tekjudreifing fyrir árin 2003 og 2004. Niðurstöðurnar eru á þá leið að tæplega 10% Íslendinga á einkaheimilum voru fyrir neðan lágtekjumörk, sem eru skilgreind sem 102.664 krónur í ráðstöfunartekjur fyrir einstakling en 215.594 krónur fyrir fullorðna með tvö börn.

Reiknað var hlutfall hæstu og lægstu tekna, þannig að þau 20% landsmanna sem höfðu hæstar ráðstöfunartekjur voru borin saman við þau 20% sem voru með lægstu tekjurnar. Í ljós kom að tekjuhæsti hópurinn var með 3,5 sinnum hærri tekjur en sá tekjulægsti. Gini-stuðullinn samkvæmt rannsókn Hagstofunnar var 0,24 árið 2003 en hafði hækkað upp í 0,25 árið eftir en söluhagnaður af hlutabréfum var ekki tekin með í þessa mælingu.

Þegar horft er til þess hvernig Ísland kom út í samanburði við önnur Evrópuríki er ekki annað hægt að segja en að útkoman sé jákvæð. Af 31 Evrópuþjóð árið 2004 var aðeins ein þjóð með lægra lágtekjuhlutfall en Íslendingar, tvær með sama hlutfall en 27 þjóðir með hærra hlutfall.

Hvað varðar hlutfall efstu og lægstu tekjuhópanna voru aðeins tvær þjóðir með lægri stuðul en Íslendingar en 28 með hærri stuðul. Ef rýnt er í niðurstöður um Gini-stuðulinn kemur í ljós að þrjár Evrópuþjóðir voru með lægri Gini-stuðul og 27 þjóðir með hærri stuðul.

Ísland stenst samkvæmt þessari rannsókn prófið um jöfnuð í þjóðfélaginu. Það hafa vissulega orðið breytingar í þá veru að þeir ríkustu hafa orðið ríkari. Staðreyndin er hins vegar sú að þeir sem minnst hafa milli handanna hafa einnig bætt sína stöðu verulega. Það getur varla verið vandamál að einhverjir efnist á meðan þeir sem eru með lægstu tekjurnar gera það líka.

Þau voru ekki ýkja trúverðug viðbrögðin hjá stjórnarandstöðunni þegar rannsókn Hagstofunnar var rædd í þinginu um daginn. Þar var helsta innlegg þingmanna stjórnarandstöðunnar að fyrirspyrjandi og svarandi væru að setja á svið „leikrit“ en lítill vilji virtist vera til þess að ræða málið efnislega. Sem er einkennilegt vegna þess að ekki hefur skort áhugann þegar rannsóknir á jöfnuði hafa bent til þess að hann sé að minnka. Ef marka má Fréttablaðsgrein formanns þingflokks Samfylkingarinnar virðast rannsóknir á borð við þessa alls ekki ná í gegn. Jafnvel þótt Ísland komi í títtnefndri rannsókn betur út en nánast öll aðildarríki í fyrirheitna landinu Evrópu hvað varðar jöfnuð, hagvöxt, kaupmáttaraukningu og útgjöld til velferðarmála talar formaðurinn í grein sinni um „vaxandi misskiptingu“ og flokkurinn er á hraðleið með Ísland inn í Evrópusambandið.

Það er miður að jafnmikilvægur málaflokkur og jöfnuður í þjóðfélaginu sé ítrekað nýttur til þess eins að reyna að slá pólitískar keilur. Á þessu sviði hlýtur að vera sérstaklega mikilvægt að hrapa ekki að niðurstöðum heldur velta því vandlega fyrir sér hvaða þjóðfélagsstefna skili almenningi öllum mestri lífskjaraaukningu.

Úttekt Hagstofunnar

-ÁH

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.