Í mars verður einum af leiðtogum þýska hryðjuverkahópsins Rauðu herdeildarinnar, einnig þekkt sem Baader-Meinhof, veitt reynslulausn úr fangelsi. Brigitte Mohnhaupt hefur afplánað 24 ár af fimmföldum lífstíðardómi sem hún fékk fyrir aðild að níu morðum. Annar meðlimur hópsins, Christian Klar, sem einnig situr í fangelsi fyrir glæpi sína hefur óskað eftir náðun frá forseta Þýskalands. Mörgum Þjóðverjum er enn í fersku minni glæpir hryðuverkahópsins sem framdir voru á áttunda og níunda áratugnum og hafa deilur risið um hvort sleppa beri meðlimum hans úr fangelsi.
Rauða herdeildin var stofnuð í Vestur-Þýskalandi árið 1970 af hópi róttæks ungs fólks sem barðist gegn því sem hann taldi kúgun kapítalismans og heimsvaldastefnu Bandaríkjanna með aðferðum á borð við mannrán, bankarán og vopnaðar árásir á fólk. Þegar mest var kváðust um fjórðungur ungra Vestur-Þjóðverja finna einhverja samkennd með hryðjuverkahópnum. Alls létust 34 manns og hundruð annarra slösuðust í árásunum hópsins.
Eftir að ungur mótmælandi var skotinn í höfuðið af lögreglu árið 1967 ákvað Andreas Baader að þáverandi stjórnvöld væru litlu skárri en þau sem voru við völd fyrir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Baader afréð að hrinda af stað ofbeldisfullri herferð og sprengdi tvær heimagerðar sprengjur í verslunum í Frankfurt ári síðar. Í kjölfarið var hann handtekinn og fangelsaður en árið 1970 tókst honum að sleppa með aðstoð blaðakonunnar Ulrike Meinhof og eftir það varð heitið Baader-Meinhof til í hugum almennings.
Árið 1970 fóru nokkrir einstaklingar úr hópnum til Jórdaníu þar sem þeir fengu þjálfun í meðferð vopna í búðum á vegum Frelsisher Palestínu (PLO). Næstu tvö árin á eftir rændi hópurinn banka og sprengdi sprengjur í byggingum í Þýskalandi. Baader og Meinhof voru síðan handtekin ásamt þremur öðrum árið 1972.
Eftir handtökuna tók önnur kynslóð við baráttu hryðjuverkahópsins, þar á meðal Brigitte Mohnhaupt og Christian Klar, og í hönd fóru einar blóðugustu og stærstu árásir hópsins í því augnamiði að fá félaga sína lausa úr fangelsi. Réttarhöld yfir þeim hófust árið 1975 og síðar sama ár fannst Meinhof látin í klefa sínum í snöru. Samsæriskenningar voru uppi um hvernig dauða hennar hefði borið að.
Árið 1977 gerðust keðjuverkandi atburðir sem hafa síðan verið kallaðir “Þýska haustið.” Eftir að hafa myrt saksóknara og bankastjóra fyrr á árinu rændi Rauða herdeildin Hanns Martin Schleyer sem var yfirmaður þýska vinnuveitendasambandsins og fyrrum félagi í Nasistaflokknum. Lausn hans var boðin í skiptum fyrir lausn fanganna.
Stuttu eftir að viðræður hófust rændu nokkrir Arabar flugvél með þýskum ferðamönnum á leið frá Mallorca til Frankfurt til að auka þrýsting á stjórnvöld um lausn fanganna auk annarra krafna. Flugmaður vélarinnar var myrtur af hryðjuverkamönnunum þremur dögum eftir flugránið. Stuttu síðar náðu þýskir sérsveitarmenn vélinni á sitt vald. Þrír flugræningjar létust en allir farþegarnir sluppu heilir á húfi.
Eftir að fréttir af björgun flugvélarinnar bárust fundust Baader og hinir fangarnir látnir í klefum sínum eftir sjálfsmorð þó að samsæriskenningar hafi verið um dauða þeirra eins og Meinhof. Degi síðar barst tilkynning frá Rauðu herdeildinni um að Schleyer hefði verið tekinn af lífi.
Hryðjuverkahópurinn hélt áfram árásum sínum á níunda áratugnum en varð aldrei jafn áberandi og hann hafði verið á áttunda áratugnum. Fall Berlínarmúrsins árið 1989 veikti hópinn enn til muna og eftir að ekkert hafði heyrst frá hópnum í langan tíma barst tilkynning árið 1998 um að hann væri liðinn undir lok með orðunum: “Byltingin segir: Ég var, ég er og ég mun verða á ný.”
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021