Hin virtu bresku BAFTA verðlaun voru veitt við hátíðlega athöfn í Lundúnum í gær. Herlegheitin voru sýnd í sjónvarpi allra landsmanna og segja má að íslenski þulurinn hafi sett nokkurn svip á útsendinguna.
Það verður að segja eins og að Bretar kunna vel til verka þegar afhenda skal verðlaun á borð við þessi. Húmorinn er nokkuð þurr og kaldhæðinn að mestu, ekki of mikið gert úr stjörnufans og almennt var þetta ágætt sjónvarpsefni á sunnudagskvöldi. Í samanburði við óskarsverðlaunin er þessi hátíð öllu nettari í sniðum en ekki síður merkileg.
Það kom líklega fáum á óvart að kvikmyndin The Queen þótti bera af og var valin besta myndin. Helen Mirren lék þar titilhlutverkið og fékk hún að sjálfsögðu verðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir eftirminnilega túlkun sína á drottningunni. Aldrei skyldi vanmeta áhuga Breta þegar kemur að kóngafólkinu.
Íslandsvinurinn Forest Whitaker sem lék tjónamatsmann í A Little Trip to Heaven fékk verðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir leik sinn í myndinni The Last King of Scotland. Sú mynd fékk tvenn önnur verðlaun og var meðal annars valin besta breska kvikmynd ársins. Þar keppti hún við myndir á borð við Casino Royale, The Queen og United 93.
Reyndar vonaði höfundur hálft í hvoru að myndin um njósnara hennar hátignar tæki þessi verðlaun, enda besta Bond mynd í áratugi – jafnvel sú besta frá upphafi – að sjálfsögðu að mati höfundar.
Fjöldinn allur af öðrum verðlaunum voru veitt í ýmsum flokkum sem hægt væri að telja upp í talsvert löngu máli, en þess í stað er rétt að benda lesendum á vef BAFTA verðlaunanna: http://www.bafta.org/site/page287.html.
En víkur nú sögunni að útsendingu Sjónvarpsins. Það kom höfundi í opnu skjöldu að þegar útsending hófst hóf íslenskur þýðandi og þulur upp raust sína. Þar var kominn Ólafur H. Torfason og stóð hann sig nokkuð vel. Hann lét þó stundum í sér heyra á vitlausum tímum og þurfti jafnan að lækka í hljóðinu í útsendingunni á meðan. Verkefnið er þó síður en svo auðvelt enda ekki mikið um þagnir á verðlaunahátíð sem þessari.
Sjónvarpinu ber samkvæmt útvarpslögum frá árinu 2000 að bjóða upp á íslenskt tal eða texta sé um að ræða efni á erlendu tungumáli. Þetta er vissulega sjónarmið, en þó að mati höfundar algjörlega óþarft að setja slíkt í lög – raunar fráleitt. Ákjósanlegt hefði verið að fá að horfa óáreittur á útsendinguna að utan.
Líklega eru einhverjir ósammála og vilja þýðanda og þul með öllu dagskrárefni. Einnig má kannski segja að væri þetta ekki í lögum myndi Sjónvarpið geta dregið talsvert úr kostnaði með því að sleppa þýðingum með öllu sem væri ekki æskilegt, sérstaklega þegar barnaefni á í hlut.
Það væri hins vegar æskilegt að Sjónvarpið hefði að einhverju leyti sjálfvald í þessu efni og gæti þannig valið atburði þar sem þýðandi og þulur ætti vel við. Það hefði verið óþarfi á BAFTA verðlaununum í gær enda ólíklegt að margir sem fylgjast með efni sem þessu eigi í miklum vandræðum með enskuna.
- Siðlaust guðlast - 5. september 2007
- Þess vegna er Laugavegurinn dauður - 6. mars 2007
- Hvað á RÚV að þýða? - 12. febrúar 2007