Sú var tíð að greinaskrif í íslenskum dagblöðum voru fjörug og krassandi, sumir myndu jafnvel segja ómálefnaleg og rotin. Hin síðari ár virðast greinarhöfundar hafa róast og meirihluti þeirra tekur afstöðu sem nær ómögulegt er að vera ósammála eða þeir fjalla um mál sem engan snerta eða öllum er sama um.
Grein Sverris Hermannssonar í Morgunblaðinu sl. fimmtudag minnti um margt á þessa gömlu tíma. Þar var skotið föstum skotum og höfundur hugsaði jafnvel meira um stíl en mikilvægi þess að vera málefnalegur. Engu að síður var greinin skemmtileg og hefur auðvitað fyrst og fremst gildi sem slík.
Á fundi ríkisstjórnarinnar í gær var ákveðið að hefja ekki veiðar á hval fyrr en á næsta ári. Ástæðan var sögð sú, að skutull, sem væri einkar mannúðlegur og Norðmenn væru að hanna, yrði ekki tilbúinn fyrr en næsta vor. Ekki er nú mikill bragur á þeirri útgerð sem er upp á aðra komin hvað varðar veiðarfæri. Hvað ef Norðmenn neita Íslendingum um skutulinn? Þá sætum við aldeilis í súpunni – ekki getum við hannað sambærilegan skutul sjálf, eða hvað??
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021