Vinstri menn eru alltaf jafn samkvæmir sjálfum sér og hafa þeir undanfarna daga notað orð eins og ófrægingarherferð um upplýsingar þær, sem fyrrum starfsmenn Helga Hjörvar og Hrannars B. Arnarssonar, hafa vakið athygli fjölmiðla á. Borgarstjóri segir ekkert athugavert við að þeir félagar og fjármálaspekingar sitji í borgarstjórn Reykjavíkur. En fyrir fáum árum sömdu flokksfélagar þeirra Helga og Hrannars stefnuyfirlýsingu:
„Gamla kerfið þar sem skuldir og ábyrgðir eru skildar eftir í gjaldþrotinu og sömu menn birtast svo bara aftur undir nýju firmanafni verður að líða undir lok. Það er fáheyrt í siðuðum löndum að slíkir glæframenn í viðskiptalífi geti haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist, hvað þá heldur einnig gegnt opinberum trúnaðarstörfum.“
Úr stefnuyfirlýsingu Alþýðubandalagsins 1995, „Ný leið Íslendinga“.
Í Morgunblaðinu á fimmtudaginn birtist hugleiðing eftir Jakob F. Ásgeirsson þar sem bent er á þennan boðskap Alþýðubandalagsins fyrir þremur árum. Málsvörn vinstri manna nú sýnir, að annað hvort er minni þeirra svona gloppótt eða þeir svífast einskis til að slá ryki í augu almennings þegar svo stutt er til kosninga. Grein Ásgeirs fjallar hins vegar einungis að litlu leyti um málflutning vinstri manna, heldur beinir hann sjónum sínum að sinnuleysi fjölmiðla og boðskapurinn er í hnotskurn þessi:
Það hlýtur að teljast frumskylda fjölmiðla í lýðfrjálsum ríkjum að gefa sem gleggstar upplýsingar um þá menn sem bjóða sig fram til starfa í þágu almennings. Nú er að sjá hvort íslenskir fjölmiðlar beiti skarpri egg sinni á þessa meinsemd þjóðfélagsins, sem ferill Helga og Hrannars vissulega er – alla vega ef tekið er mið af stefnuyfirlýsingu þess flokks sem þeir báðir voru starfandi í þegar hún var samin.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021