Mun Alexander Lúkasjenkó fara „sænsku leiðina“?
|
Eins og rifjað var upp hér á Deiglunni fyrir skemmstu hefur Össur Skarphéðinsson mikið dálæti á Hugo Chavez, forseta Venesúela, og lítur á hann sem skoðanabróður sinn. Og nú lítur út fyrir að Samfylkingin hafi jafnvel eignast annan merkilegan bandamann – Alexander Lúkasjenkó, forseta Hvíta-Rússlands.
„Síðasti einræðisherra Evrópu“ eins og bandarísk stjórnvöld hafa ítrekað kallað hann, lýsti því yfir í viðtali við þýska dagblaðið Die Welt fyrir skemmstu, að hann ætti sér þá ósk heitasta að Hvíta-Rússland yrði eins og Svíþjóð eða Þýskaland einn daginn.
Þessi óvænta yfirlýsing Lukashenko kom í kjölfarið á þeim deilum sem Hvít-Rússar áttu nýlega við Rússa, sinn mikilvægasta bandamann, um innflutning á gasi til Hvíta-Rússlands. Stjórnvöld í Minsk urðu að lokum við þeirri kröfu Kremlarbónda um helmings hækkun á gasverði til landsins auk þess sem endir var bundinn á tollfrjálsan innflutning á olíu frá Rússlandi.
Stjórnmálaskýrendur telja að þessar aðgerðir Rússa séu áfall fyrir efnahag Hvít-Rússa – sem ekki var burðugur fyrir – og því nauðsynlegt fyrir Lukashenko að bregðast við með því að leitast eftir bættum samskiptum við Evrópusambandið og Bandaríkin. Í tilkynningu sem barst frá fréttastofu ríkisins reyndi Lukashenko að vekja áhuga Vestrænna fyrirtækja á fjárfestingum þar í landi og þannig hjálpað við að draga úr þeim áhrifum sem Rússar hafa á orkuflutning til Evrópu. „Ef Vestræn orkufyrirtæki ættu hlut í orkuflutningskerfi Hvít-Rússa, myndu Rússar ekki haga sér á þann hátt sem þeir hafa gert að undanförnu“, lét Lúkasjenkó hafa eftir sér.
Aðildarríki Evrópusambandsins hafa gagnrýnt stjórnarfar Lukashenko harðlega og í mars á síðasta ári tók í gildi ferðabann á helstu ráðamenn Hvít-Rússa til Evrópu, í kjölfar þess að Lúkasjenkó var ásakaður um að hafa hagrætt niðurstöðum forsetakosninganna þar í landi. Lúkasjenkó sagði hins vegar að það væri undir Evrópusambandinu komið að taka fyrsta skrefið í átt að bættum samskiptum við Hvíta-Rússland og afnema hið „miðaldarlega ferðabann“ á hvít-rússneska stjórnmálamenn til Evrópu.
En það er ekki bara hið sænska samfélag sem heillar þennan einræðisherra í Austur-Evrópu. Lúkasjenkó lét einnig hafa það eftir sér í viðtali við Die Welt, að engin þjóð væri jafn reiðubúin til að taka upp evru eins og Hvít-Rússar.
Hvort þessi ummæli sem Ljúkasjenkó hefur látið frá sér bendi til þess að von sé á einhverjum pólitískum- eða efnahagslegum umbótum í Hvíta-Rússlandi á næstunni, er erfitt að spá fyrir um. Á sama tíma og gasdeila Hvít-Rússa og Rússa stóð sem hæst í síðasta mánuði, hindraði það ekki Ljúkasjenkó að fangelsa stjórnarandstæðinga sína.
- Hvenær mun kínverska hagkerfið fara fram úr hinu bandaríska? - 21. ágúst 2008
- Af hverju kapítalismi leiðir ekki endilega til lýðræðis - 15. ágúst 2008
- Annað tækifæri - 12. janúar 2008