Þeir sem sinna hagsmunabaráttu stúdenta vita af eigin reynslu hversu mikilvæg slík barátta er og að mörg mál sem stúdentum þykja sjálfsögð eru það hreint ekki og hefðu aldrei komið til ef ekki hefði verið fyrir ötula sjálfboðavinnu stúdenta. En því miður fer þetta oft fram hjá hinum almenna stúdent. Að heyra því haldið fram að hagsmunabarátta stúdenta skipti engu máli getur því verið sárt fyrir þá sem að baráttunni starfa.
Hvernig er þá hægt að ná til stúdenta og gera þeim grein fyrir því að þetta sé eitthvað mikilvægt og eitthvað sem skiptir máli. Gera má ráð fyrir því að stúdentar tækju eftir því ef engin hagsmunafélög störfuðu innan Háskólans og Stúdentaráð væri ekki til.
Stúdentakortin sem veita stúdentum sólarhringsaðgang að byggingum eru dæmi um eitthvað sem ekki væri til án hagsmunabaráttu stúdenta. Einnig hefði kvörtun um einkunnaskil kennara aldrei verið send til umboðsmanns Alþingis ef ekki væru öflugir aðilar að vinna að málefnum stúdenta. Aukin fjárframlög til Háskólans hefðu kannski aldrei komið til ef stúdentar hefðu ekki þrýst á stjórnvöld og unnið með þeim að bættum skóla.
Því spyr maður sig hvort stúdentar tækju eftir því ef hlutir á borð við þá sem taldir voru upp að ofan hefðu aldrei komið til. Erfitt er að ímynda sér að stúdentar myndu sætta sig við ástandið þá. Þess vegna er hagsmunabaráttan mikilvæg. Vegna þess að hún skiptir verulegu máli og ekki má vanmeta hlutverk stúdenta í baráttunni fyrir bættum háskóla.
Því er nauðsynlegt að fólk nýti sér rétt sinn og kjósi. Góð kosningaþátttaka segir að stúdentum sé annt um eigin hag og vilja veg Háskólans sem mestan.
Ég vil því hvetja alla nemendur Háskóla Íslands til fylkja liði á kjörstað. Kosið er í flestum byggingum skólans í dag frá kl.9:00-18:00. Öflug hagsmunabarátta næsta árið er í húfi.
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021