Það er ljóst að næsti forseti Frakklands verður nýr af nálinni. Ségoléne Royal, frambjóðandi sósíalista gæti orðið fyrst kvenforsetinn og Nicolas Sarkozy, frambjóðandi hægri manna, gæti orðið fyrsti innflytjandinn til að verða forseti. Undir stjórn hvers eiga Frakkar möguleika?
Eins og allir vita hefur Frakklandi verið á einhvers konar hnignunarskeiði undanfarin ár eða jafnvel áratugi, atvinnuleysi verið um 10% í fjölda ára, óeirðir í úthverfunum og ímynd Frakka sem boðbera frelsis, jafnréttis og bræðralags hefur einhvern veginn tapað trúverðugleika sínum. Sú staðreynd að borgaraelíta hefur stjórnað landinu undanfarin ár, hvort sem hún er til hægri eða vinstri, dregur líka einhvern veginn úr mætti orðanna „jafnrétti og bræðralag“. Stór hluti franskra stjórnmálamanna er menntaður í École national d’administration (ENA) (þ. á m. Royal). ENA er stjórnmálaskóli elítunnar, en nemendur þaðan hafa nokkurs konar einkarétt á háttsettum stöðum innan stjórnkerfisins. Skólinn var stofnaður 1945 af de Gaulle til að brjóta upp völd yfirstéttarinnar í stjórnsýslunni. Hugmyndin virðist hins vegar hafa snúist hressilega í höndunum á Frökkum þar sem ENA nemendur virðast núna vera sjálfir orðnir einhvers konar elíta sem hefur tögl og hagldir í franskri stjórnsýslu.
Sósíaliskur frambjóðandi með eftirnafnið „Royal“ klipptur beint út úr borgaraelítunni, sem virðist leggja mikla áherslu á útlit og framkomu hljómar einhvern veginn ekki líklegt til árangurs. Að láta í ofanálag hafa eftir sér að skoðanir hennar séu skoðanir frönsku þjóðarinnar hljómar eins og skoðanakannanna pólitík. Slík pólitík, vita allir að lifir bara í nokkra mánuði og nú lítur jafnvel svo út að þeir mánuðir séu liðnir hjá Royal. Trúverðugleiki þess sem ætlar að stjórna eftir skoðanakönnun en ekki eigin sannfæringu er afskaplega lítill. Á haustmánuðum hafði Royal nokkra forystu í skoðanakönnunum en undanfarna daga hefur Sarkozy verið að skríða fram úr henni. Tölurnar eru þó enn rétt sitthvorum megin við 50%.
Sarkozy hefur litið bæði til Bretlands og Bandaríkjanna um hvernig ná megi betri árangri, þó það megi hljóma eins og eitur í beinum margra Frakka. En kannski er þetta bara enn einn misskilningurinn um Frakka, enda auðveldara að finna McDonalds stað í París en í New York. Gæti verið að Frakkar séu að verða tilbúnir til að taka sig saman í andlitinu, horfast í augu við að jafnréttið og bræðralagið er kannski meira í orði en á borði og að allt sem frá hinum engilsaxneska heimi er kannski ekki alslæmt, eins og þeir viðurkenna jú sjálfir í daglegri hegðun?
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020