Í gær var stórt skref stigið í húsnæðismálum stúdenta þegar formaður Stúdentaráðs og oddviti Vöku, Sigurður Örn Hilmarsson, skrifaði undir viljayfirlýsingu ásamt borgarstjóra um fleiri lóðir fyrir stúdentagarða. Í viljayfirlýsingunni kemur fram að borgaryfirvöld ætli sér að byggja nýja stúdentagarða á þremur stöðum í borginni en þar segir meðal annars: „Aðilar eru sammála um að á næstu þremur árum fari framtíðaruppbygging fram á þremur svæðum í Reykjavík. Í fyrsta lagi á svæði við Hverfisgötu í nágrenni við nýlegar stúdentaíbúðir við Lindargötu. Í öðru lagi á nýju íbúasvæði við Sléttuveg. Í þriðja lagi í Vatnsmýrinni í samráði við Háskóla Íslands“. Þessi árangur er afrakstur þeirrar aðferðafræði sem Vaka hefur lagt áherslu á undanfarin ár
Í dag rúma Stúdentagarðarnir einungis um 8% stúdenta en Félagsstofnun Stúdenta (FS) hefur sett sér það markmið að auka þetta hlutfall upp í 15% á næstu árum. Það sem hefur hins vegar staðið áframhaldandi uppbyggingu fyrir þrifum eru ekki peningar heldur lóðir því FS hefur nægt fjármagn til byggingaframkvæmda. Það voru því miklar gleðifregnir fyrir stúdenta þegar skrifað var undir viljayfirlýsinguna um fleiri lóðir í gær.
Í ár hefur Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, lagt mikið kapp á að leysa húsnæðisvanda stúdenta. Í vor reisti Stúdentaráð í samvinnu við FS upp sex metra hátt skilti í Vatnsmýrinni sem bar yfirskriftina “Hér viljum við byggja stúdentagarða”. Skiltið var reist í þeim tilgangi að vekja ráðamenn borgarinnar til umhugsunar um þessi mál. Í kjölfarið hóf Vaka að hitta stjórnmálamenn skipulega og ræða mögulegar lausnir. Þessar viðræður hafa nú skilað þeim árangri sem til var ætlast.
Þetta mál er í heild sinni afbragðsgott dæmi um það hvernig aðferðir Vöku virka. Vaka leggur áherslu á uppbyggilega og málefnalega umræðu og telur að samningaviðræður við stjórnmálamenn, Háskólayfirvöld og aðra stúdenta skili mun meiri árangri heldur en mótmælaaðgerðir, ályktanir og upphrópanir um hin og þessi mál.
Þetta mál er einnig gott dæmi um af hverju allir Háskólanemar ættu að nýta kosningarétt sinn og ganga að kjörborðinu á næstu tveimur dögum. Hagsmunabarátta stúdenta skiptir verulegu máli þrátt fyrir að mörgum þyki hún oft á tíðum ósýnileg. Á bakvið fimm mínútur í sviðsljósi frétta við undirskrift samnings sem þessa geta legið margir mánuðir í sjálfboðavinnu.
Í hagsmunabaráttu stúdenta eru það fyrst og fremst aðferðirnar sem skipta máli og það hefur sýnt sig að aðferðir Vöku virka! Höldum áfram á braut árangurs og krossum við Vöku á kjörseðlunum þann 7. og 8. febrúar.
- Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum - 11. nóvember 2010
- Störfin sem vaxa ekki á trjánum - 22. september 2010
- Viðhorf á villigötum - 11. ágúst 2010