Váleg tíðindi berast frá Venesúela. Þann 31. janúar samþykkti þing Venesúela að veita forseta ríkisins, Hugo Chavez, völd til að stjórna með tilskipunum næsta hálfa annað árið, á meðan hann reynir að gera að veruleika þjóðnýtingaráform sem eiga að vera lykillinn að vinstribyltingunni sem hann vill gera. Sú bylting felst m.a. í þjóðnýtingu orku og fjarskiptaiðnaðarins í ríkinu.
Af einhverjum ástæðum dáist margur vinstri maðurinn á Íslandi að Chavez og ekki minnkaði sú aðdáun eftir illa ígrundaðra og innihaldslausra upphrópandi hans á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í haust. Einn þeirra sem dáist að Chavez er Össur Skarphéðinsson þingmaður Samfylkingarinnar. Í ansi athyglisverðri færslu á vefsíðu Össurar frá 28. nóvember á síðasta ári ritaði hann eftirfarandi:
„Það eru mikil tíðindi að gerast í Suður-Ameríku, álfu hjarta míns. Daníel Ortega vann um daginn sigur í forsetakosningunum í Níkaragva, byltingarhetjan og verkalýðsforinginn Lúla var nýlega endurkjörinn í Brasilíu, Evó Mórales vann í Bólivíu og strigakjafturinn með stálhnefana, Hugó Chavez, stýrir Venesúelu.
Þarmeð má segja að við jafnaðarmenn séum búnir meira og minna að leggja undir okkur Suður-Ameríku.“
Af þessari færslu Össurar má draga þá ályktun að Össur telji sig skoðanabróður Hugo Chavez. Hlýtur slík afstaða að teljast nokkuð merkileg og jafnvel furðuleg. Spyrja verður hvort Össur álíti þjóðnýtingu og einræðistilburði æskilega. Var ekki í mikilli tísku hjá íslenskum jafnaðarmönnum fyrir ekki svo löngu að tala um lýðræðishalla? Verður ekki að telja ákvörðun þingsins í Venesúela til marks um lóðréttan lýðræðishalla? Össur virðist hafa velþóknun á mönnum sem standa fyrir slíku. Því ætti að halda til haga.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009