Fyrir rétt rúmu ári var opnað fyrir skráningu Stúdentakorta. Þetta fannst okkur í Vöku merkur áfangi, enda hafði aðgangsstýringakerfi fyrir nemendur setið fast í stjórnsýslu Háskólans í 9 ár. Það var ekki fyrr en sumarið 2005, þegar Vökuliðar fóru á fund Háskólans og buðust til að sjá um framkvæmd kortanna, að hjólin fóru að snúast.
Það var alveg ljóst þetta væri heljarstórt verkefni og því var vandað til verka. Tæknifólkið í hópnum smíðaði umsjónarkerfi sem heldur utan um umsóknir korta, prentun þeirra og hefur samskipti við aðgangsstýringarkerfi Öryggismiðstöðvarinnar, sem svo stýrir hurðarofum.
Án þess að fara út í smáatriði þá má einfaldlega segja að kerfið er umfangsmikið en, það sem öllu máli skiptir, virkt.
Of tímafrekt, of mikil vinna.
Gagnrýni Röskvu á Stúdentakortin í kosningablaði sínu var áhugaverð lesning. Að vísu var farið með rangt mál á stöku stað og reynt að koma seinagangi í Háskólayfirvöldum og Öryggismiðstöðinni á Vöku – en það er kosningailmur í loftinu og svona dylgjur virðast gjarnan finna sér birtingarform á slíkum tímum.
Það sem gerði lesninguna skemmtilega var umræðan um að kortaafhendingin væri of tímafrek og of mikil vinna. Þar sem Röskvan hefur ekki komið að framleiðslu kortanna að öðru leyti en þessu, þ.e. að afhendingu þeirra, var hún það eina sem þau kunnu að gagnrýna. Og það gerðu þau. Of mikil vinna. Of tímafrekt að afgreiða kortin.
Það þarf jú að standa upp úr skrifstofustólnum, og allt.
Það er erfitt að henda reiður á þeim hundruðum klukkustunda sem hafa farið í verkefnið. Fundir, símtöl, vökunætur framan við tölvuskjáinn og slagsmál við kortaprentarann hefur þurft til að fá þetta til að virka. Það hefur í það minnsta tekið meiri tíma en afhending kortanna uppi í Stúdentaráði, sem Röskva kvartar undan. Í þessari grein þeirra kristallast munur fylkinganna á nokkuð skýran hátt. Þetta er vinna sem Vaka er tilbúin að leggja á sig, en Röskva greinilega ekki.
Heillandi – en af hverju SHÍ ?
Hlutverk Stúdentaráðs er ekki að vera rekstraraðili þjónustu sem þessarar og í fullkomnum heimi hefði Stúdentaráð aldrei þurft þess. Þó
er það oft þannig að Háskólinn virðist þurfa einhvern til að koma ákveðnum verkefnum af stað. Sýna fram á að verkið sé framkvæmanlegt.
Auk Stúdentakortanna má til dæmis nefna prófasafn Háskólans. HÍ treysti sér ekki til þess að skanna inn gömul próf og setja á Ugluna – það var talin of mikil vinna, of tímafrekt. Vaka var ekki á sama máli, bretti upp ermar og skannaði inn prófasafnið. Að lokum tók Háskólinn við verkinu og nú er það talið sjálfsagt mál að próf birtist inni í Uglunni. Þetta er það sem Vaka gerði með Stúdentakortin; sýndi Háskólanum að verkefnið þarf ekki 9 ár í undirbúningi – það þurfi bara að stíga fyrsta skrefið.
Framtíð Stúdentakortanna
Þegar þjónustusamningur SHÍ og HÍ var endurskoðaður síðasta vor voru Stúdentakortin, og fjárveiting vegna þeirra, rædd. Á það var sæst að taka ekki þóknun fyrir vinnu við þau heldur myndu Vökuliðar í Stúdentaráði sjá um verkið í sjálfboðavinnu þar til ferlið væri komið á það stig að Háskólinn gæti sjálfur tekið við verkinu.
Framtíðarsýn Vöku er að Reiknistofnun HÍ taki við kerfinu og tengi það Uglunni. Þannig yrðu kort prentuð út og þau afgreidd á nýju sameiginlegu þjónustusvæði RHÍ og Nemendaskrár á Háskólatorginu. Fyrir stuttu var samstarfi komið á við Félagsstofnun stúdenta með það að leiðarljósi að nýta kortin í þeirri þjónustu sem FS býður upp á, t.d. sem greiðslukort á Háskólasvæðinu og bílastæðakort við stúdentagarða við Lindargötu. Möguleikarnir eru margir og spennandi að sjá hvað kemur út úr því samstarfi.
Fulltrúar Vöku í Stúdentaráði hafa unnið að því hörðum höndum að koma kerfinu í stöðugan rekstur. Takmarkið er að sýna Háskólanum að verkið sé framkvæmanlegt. Þetta hefur kostað Vökuliða mikinn tíma, mikla vinnu og margar vökunætur – en þegar upp er staðið er takmarkinu náð og stúdentar njóta fjölmargra kosta þess.
Stúdentakortin eru mikið hagsmunamál fyrir stúdenta og nýtast fjölmörgum háskólanemum við nám sitt. Því eiga kjörnir fulltrúar í Stúdentaráði ekki að setja það fyrir sig að vinnan við þau taki tíma, hvað þá þegar eingöngu er um að ræða brot af þeirri vinnu sem slíkt verkefni krefst.
- Stúdentakortin – of mikil vinna? - 31. janúar 2007
- Nýgræðingur á Skuggagörðum - 4. september 2006