Þann 17. ágúst 2004 samþykkti ríkisstjórn Íslands að hefja undirbúning að því að vísa deilu Íslendinga og Norðmanna um síldveiðar á Svalbarðasvæðinu til Alþjóðadómstólsins í Haag. Ef af málssókninni verður er það í fyrsta sinn sem Ísland stefnir öðru ríki fyrir alþjóðadómstól.
Svalbarði er eyjaklasi með fjórum stórum eyjum og mörgum smærri, samtals 63.000 ferkílómetrar. Svalbarði nýtur sérstakrar stöðu í þjóðarétti. Um landsvæðið gildir sérstakur samningur svokallaður Svalbarðasamningur frá 1920.
Samningurinn um Svalbarða hefur að markmiði uppbyggingu eyjaklasans og friðsamlega nýtingu hans. Samningurinn kveður á um yfirráð Noregs yfir honum, en frá þeirri meginreglu eru mikilvægar undantekningar, m.a. eiga ríkisborgarar aðildarríkjanna og skip þeirra sama rétt og Norðmenn til veiða á sjó og landi en Norðmönnum er heimilt að grípa til verndaraðgerða, sem verða þó að koma jafnt niður á borgurum aðildarríkjanna. Ástæða þess að Noregi var falin yfirráð á eyjunum var nálægðin við eyjarnar. Með þeirri skipan mála var ekki ætlunin að veita Noregi sérstakan efnahagslegan ávinning. Þvert á móti var það annað markmið samningsins að tryggja rétt annarra ríkja til auðlindanýtingar á eyjunum sem þau höfðu áður notið meðan þær voru einskis manns lands.
Þann 3. júní 1977 lýsti Noregur yfir 200 sjómílna fiskverndarsvæði umhverfis Svalbarða með konunglegri tilskipun. Um 830.000 ferkílómetra hafsvæði og ein gjöfulustu fiskmið í Barentshafi voru allt í einu komin í forsjá norska ríkisins. Mörg ríki mótmæltu tilskipuninni frá 1977, m.a. Sovétríkin og Ísland. Tilkall Noregs er vafasamt eins og síðar verður vikið að. Robin Churchill, prófessor við Cardiff háskóla og þekktur sérfræðingur á sviði hafréttar, hefur bent á að 200 sjómílna svæðið umhverfis Svalbarða verði að byggjast á ríkisyfirráðum Noregs á Svalbarða og þar af leiðandi á Svalbarðasamningnum. Norðmenn geta því ekki byggt rétt sinn á innlendri löggjöf einni.
Ísland gerðist aðili að Svalbarðasamningnum þann 30. maí 1994 og var hann fullgiltur degi síðar. Tilgangurinn með aðild að samningnum var að tryggja hlutdeild Íslands í aðgerðum sem fram færu á grundvelli hans. Í flutningsræðu Jóns Baldvins vegna skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis um utanríkismál 1994 voru sett fram rök í málinu sem lýsa afstöðu Íslands.
“Í 2. gr. Svalbarðasamningsins frá 1920 er kveðið skýrt og ótvírætt á um það að allir þegnar frá aðildarríkjum og skip þeirra skuli njóta sama réttar til veiða á eyjunum og í landhelgi þeirra. Með því að lýsa einhliða yfir fiskverndarsvæði Noregs og 200 sjómílna svæðis út frá Svalbarða hefur Noregur tekið sér vald, bæði til að setja þar fiskverndarreglur og úthluta veiðikvótum að eigin geðþótta, án samráðs við samningsaðila. […] Við teljum ótvírætt að alþjóðlegur dómstóll kæmist að þeirri niðurstöðu að jafnræðisregla 2. gr. Svalbarðasamningsins eigi að gilda á öllu þessu svæði.”
Eins og áður segir samþykkti ríkisstjórn Íslands þann 17. ágúst 2004 að hefja undirbúning að því að vísa deilunni til Alþjóðadómstólsins. Morgunblaðið hafði eftir Halldóri Ásgrímssyni við það tækifæri að einhugur væri um málið innan ríkisstjórnarinnar. Jafnframt sagði Halldór að þó hafist yrði handa við undirbúning að málsókn væri brýnt að reyna til þrautar samningaleiðina við Norðmenn.
Ef Ísland fer með málið fyrir Alþjóðadómstólinn verður það í fyrsta skipti sem Ísland stefnir öðru ríki fyrir alþjóðlegum dómstóli og þ.a.l. merkisatburður í sögu íslenskra utanríkismála. Um að gera að kýla á það.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009