Almenningssamgöngur á Íslandi hafa lengi lotið því lögmáli að vera nægilega góðar til þess að skrölta áfram en ekkert umfram það. Það kostar ekki mikið í strætó en á móti kemur að þjónustan er í lágmarki. Vagnarnir og kerfið rúlla – öðru hvoru hækkar verðið á farmiðanum við mismiklar undirtektir og öðru hvoru er blásið til kynningarherferðar um strætó. Í það heila virðast samt fæstir sjá strætó sem mjög vænlegan kost.
Tilgangurinn með þessum pistli er þó ekki að halda því fram að allt sé í rugli hjá strætó nema síður sé. Þar er margt gott gert. Kerfið ber það hins vegar með sér að vantar ákveðið þjónustuviðmót. Það er eins og að þeir sem taki ákvarðanir og sjái um að móta kerfið hafi sjálfir ekki lagt á sig lengi vel að taka sjálfir strætó. Það er til dæmis ekki algeng sjón að sjá borgar- og bæjarfulltrúa eða aðra kjörna fulltrúa í strætó í dag. Kannski þykir það púkó. Nærtækari skýring er þó sennilega að þeim – líkt og flestum öðrum – þyki einkabíllinn vænlegri kostur. Það er þó útúrdúr, því hér er ætlunin að fjalla um raunir dæmigerðs Reykvíkings í strætókerfinu.
Fyrir það fyrsta virðist gengið út frá því að fólk eigi alltaf 280 krónur í lausu. Til þess að greiða eitt fargjald í strætó verða farþegar að hafa nákvæmlega þá upphæð í beinhörðum peningum. Til að mynda er ekki hægt að skipta hærri upphæð eða fá gefið til baka. Sá sem er með 500 eða 1000 króna seðil getur þannig ekki fengið 220 eða 720 krónur til baka. Annað hvort verður farþeginn að láta seðilinn af hendi og tapa afgangnum eða hreinlega að fara út.
Þá er annar möguleiki, sem virðist vera heldur fjarlægur í huga aðstandenda strætisvagnakerfisins, sem er að viðkomandi farþegi sé bara með greiðslukort og enga peninga í lausu. Reyndar ætti sú staða ekki að vera mjög fjarlæg, því kortanotkun er óvíða meiri en hér. Þannig er hlutfall seðla og myntar í umferð af vegri landsframleiðslu um 1,0% hér á landi en það er mun hærra í öðrum löndum. Hvað sem því líður er heldur ekkert sem hægt er að gera fyrir slíkan farþega – það er ekki tekið við kortum yfirhöfuð í strætó. Út með þig.
Ef það er sérstakt markmið að fæla dæmigerða Íslendinga frá því að taka strætó með því að gera þeim erfitt fyrir að borga fargjaldið, þá er almenningssamgöngukerfið til fyrirmyndar. Vilji menn á hinn bóginn ná til nýrra hópa og reyna að gera strætó að fýsilegri valkosti er breyttur greiðslumáti í vögnunum nauðsynlegur.
Sennilega er þetta ekki jafnmikið vandamál hjá þeim sem taka strætó daglega, enda eru slíkir farþegahópar líklegri til að eiga fyrirframgreidd kort, t.d. græna eða rauða kortið. En ímyndum okkur aðstöðu þess sem tekur strætó ekki reglulega en þarf þó við og við að komast á milli staða í borginni án þess að vera á bíl. Ef sá hinn sami er ekki með 280 krónur í lausu á sér verður hann að bjarga sér. Ein leiðin er að fara út í búð og skipta seðli, eða þá að fara í hraðbanka, taka út peninga og reyna svo að skipta seðlunum. Enn önnur leið er að fara út í búð, kaupa eitthvað smáræði og biðja um að fá 280 krónur umfram. Hvaða leið sem farin er við að útvega skotsilfrið, þá er bæði tímafrekt og kostnaðarsamt að standa í svona aðgerðum til þess eins að taka strætó. Afleiðingin er sú að strætó nær ekki vera skilvirkur valkostur, sem fólk getur tekið án mikillar umhugsunar eða undirbúnings.
Ef við höldum okkur við aðstæður þessa aðila, sem ganga ekki með græna kortið á sér en fá kannski við og við þá hugdettu að hoppa upp í strætó, þá eru fleiri ljón í veginum. Til dæmis eru upplýsingar á stoppustöðvum um ferðatíma strætisvagna skornar við nögl, svo vægt sé til orða tekið. Þar sem ég tek sjálfur leið 11 reglulega, er sú tímatafla nærtækt dæmi. Þetta er hluti upplýsinganna sem birtast út í biðskýli á morgnanna:
Suðurströnd 42 – 02 – 22
Melaskóli 51 – 01 – 31
Lækjargata 56 – 16 – 36
Hlemmur 01 – 21 – 41
Um tuttugu mínútna ferðalagi frá Seltjarnarnesi niður á Hlemm er sem sagt lýst með fjórum tímapunktum. Sá sem er staddur einhvers staðar á milli Seltjarnarness og Melaskóla þarf þannig að geta sér til um hvenær vagninn kemur að stoppistöðinni. Víða erlendis þekkist að í biðskýlum séu svokallaðar rauntímaupplýsingar um komutíma vagna, en þá er tölvuskjár sem sýnir hve langt er í næsta vagn. Þetta væri að sjálfsögðu til mikilla bóta. En það þarf þó kannski ekki að vera svo stórt í sniðum. Af hverju mætti einfaldlega ekki setja inn fleiri tímapunkta í tímatöflurnar? Fyrst það er verið að setja þessar töflur upp á annað borð, mætti ekki hafa þær ögn ítarlegri, þannig að farþegar hafi einhverja raunhæfa hugmynd um hvenær vagninn komi?
Umræðan um strætó hér á landi er gjörn á að falla í skotgrafir milli þeirra sem annars vegar sjá algerum ofsjónum yfir kostnaði og lélegri nýtingu kerfisins og hins vegar þeirra sem telja ekkert eðlilegra en að hella peningum í kerfi sem tiltölulega fáir nýta. En kannski væri eðlilegra að nálgast þetta frekar út frá því að gera einfaldar, praktískar breytingar á kerfinu sem gerðu það að minnsta kosti að verkum að þeir sem hafa trú á strætó sem valkosti hefðu betri upplýsingar um ferðatímana og gætu borgað fargjaldið án þess að fara í miklar útréttingar.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021