Samningar hafa nú tekist um útsendingar frá íslenskri knattspyrnu í sumar. Ljóst er að þýska fyrirtækið UFA hefur beðið nokkurt tjón af samningi sínum við KSÍ.
Gulrótin í þeim samningi var útsendingarréttur frá leikjum íslenska landsliðsins í undankeppni EM. En sú gulrót myglaði um aldur fram þegar ljóst var að mótherjar Íslands í riðlinum voru heldur „ódýrar“ þjóðir. Þá þurfti að vega á móti því tapi með því að selja sjónvarpsréttinn frá íslensku deildinni og hverjir hafa nú áhuga á henni? Þjóðverjunum var mikill vandi á höndum, því aðeins komu tveir kaupendur til greina og hvorugur hafði brennandi áhuga á efninu, voru í það minnsta ekki tilbúnir að greiða háar upphæðir. Af hverju ekki?
Einfaldlega vegna þess að íslenska deildin er ekki góð söluvara. Í fyrsta lagi eru gæði knattspyrnunnar hér heima í algjöru lágmarki nú um stundir, enda flestir bestu leikmenn Íslendinga horfnir af landi brott. Í öðru lagi bregður svo við, að í sumar verður haldin Heimsmeistarkeppni í knattspyrnu og mun RÚV sýna fleiri hundruð klukkutíma af hágæða fótbolta þaðan.
Af hverju er ríkisfyrirtæki að keppa við einkaaðila um kaup á sjónvarpsefni?, spyr sá sem ekkert veit. Þetta mál sýnir vel hversu fáránlegt það er þegar peningar skattgreiðenda eru notaðir til fullnægja kröfum fámenns þrýstihóps. Svo talar Ingólfur Hannesson um að þetta sé þjónusta við skattgreiðendur. Nú er ritstjóri Deiglunnar frekar áhugamaður um íþróttir en ekki, en að hans mati telst það varla til grundvallarþjónustu við skattgreiðendur að peningar þeirra séu notaðir til að kaupa fótbolta sem enginn nennir að horfa á.
Auðvitað á RÚV ekki standa í þessu – RÚV á náttúrlega ekki að vera til yfir höfuð, svona ef út í það er farið – einkaaðilar eru miklu færari á þessum sviðum sem öðrum og þá getur hver og einn ákveðið fyrir sig hvort íslenskur fótbolti sé þess virði að borga áskrift að ákveðinni sjónvarpsstöð til að sjá hann.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021