26. desember 1998, 17. tbl. 1. árg.
Sjö af hverjum tíu Reykvíkingum eru á móti útsvarshækkun R-listans, ef marka má nýja skoðanakönnun Gallups. Fréttastofa ríkissjónvarpsins las glögglega í niðurstöðurnar: „Sjö af hverjum tíu Reykvíkingum eru á móti útsvarshækkun meirihluta borgarstjórnar en kjósendur R-listans styðja hækkunina.“ Einmitt það. Eru kjósendur R-listans ekki nema 30% Reykvíkinga? Gott ef rétt væri, en sama Gallupkönnun mældi fylgi R-listans rúm 50% og því hlýtur verulegur hluti þeirra að vera andvígur hækkuninni.
Seinna kjörtímabil R-listans hefur ekki farið glæsilega af stað. En það sem einkum vekur athygli við þessa fyrstu mánuði seinna kjörtímabils R-listans er frammistaða borgarstórans, sem hefur slag í slag orðið uppvís að ósannindum og blekkingum. Persónulega sterk staða hennar hefur haldið henni og R-listanum frá því að steyta á skeri hingað til og hún hefur enn sterka stöðu í skoðanakönnunum, En stjórnarmálamaður, sem stöðugt verður uppvís af vankunnáttu, hroka, blekkingum og jafnvel lygum, nýtur varla trausts til frambúðar. Eins og Abraham Lincoln, og síðar Bob Marley, sagði: „You can fool some people some time, but you can’t fool all the people all the time.“
Ástþór Magnússon, friðarhöfðingi og lýðskrumari, er duglegur að láta ljós sitt skína í fjölmiðlum. Það vakti mikla athygli þegar sjálf fréttastofa ríkisútvarpsins (sem nýtur mest trausts landsmanna) var með beina útsendingu frá heimili Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, á aðfangadag. Þar voru samankomnir Ástþór Magnússon og fleiri friðelskandi menn sem rufu freklega friðhelgi heimilis ráðherrans með því að sturta ótollafgreiddum pökkum í garðinn fyrir utan heimili hans. En það var í sjálfu sér ekki fréttin hjá RÚV, heldur sú staðreynd að jólapakkar friðarsinnans höfðu ekki fengið tollafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli. Það er spurning hvernig umhorfs yrði í garði utanríkisráðherra, ef allir þeir sem ekki fengju umsvifalaust tollafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli myndu sturta vörunum í garðinn hjá ráðherra…
Ástþór virðist reyndar kominn í persónulegt stríð við Framsóknarflokkinn og til hvaða ráða grípur hann til að koma höggi á flokkinn? Jú, hann óskar eftir inngöngu og hyggst taka þátt í prófkjöri flokksins. Hann veit sem er, að með því að tengja sitt nafn við þennan gamalgróna stjórnmálaflokk mun hann líklega ganga af honum dauðum. Þetta kallar maður mannorð í lagi…
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021