Íslensk stjórnvöld hafa ekki verið sérlega feimin þegar kemur að samskiptum við önnur ríki um málefni hafsins. Það skýtur því skökku við að þau skuli ekki hafa tekið sér svokallað aðlægt belti sem hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna heimilar ríkjum að taka sér.
Samkvæmt 33. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna geta strandríki tekið lögsögu á belti sem liggur að landhelginni. Slíkt belti má ekki ná lengra en 24 sjómílur frá grunnlínunum. Á aðlæga beltinu, getur strandríkið farið með nauðsynlegt vald annars vegar til að afstýra brotum á lögum og reglum þess í tolla-, fjár-, innflytjenda- eða heilbrigðismálum í landi eða landhelgi þess og hins vegar til að refsa fyrir brot á ofangreindum lögum og reglum sem framin eru í landi eða landhelgi þess. Með 24. gr. Genfarsamningsins um landhelgina og aðlæga beltið frá 1958 var ríkjum fyrst heimilað að taka upp slíkt belti að þjóðarétti. Mátti það ná 12 sjómílna fjarlægð frá grunnlínum.
Rétt er að geta þess að Ísland fullgilti aldrei fyrrnefndan Genfarsamning og skömmu eftir tilurð hans færði Ísland landhelgi sína út í 12 sjómílur. Það hefði því verið órökrétt að taka upp aðlægt belti á þeim tíma. Önnur staða er uppi á borðinu eftir undirritun og fullgildingu hafréttarsamningsins. Ísland hefur ekki tekið lögsögu á slíku belti og ekki virðist hafa komið til tals, a.m.k. opinberlega, að taka lögsögu á þessu svæði umhverfis landið.
Í bók Gunnars G. Schram, Hafréttur er bent á að ákvæði hafréttarsamningsins um efnahagslögsögu dragi mjög úr mikilvægi aðlæga beltisins. Strandríkjum sé nú heimilað að taka sér allt að 200 sjómílna efnahagslögsögu og þá sé aðlæga beltið innan þeirrar lögsögu en ekki á úthafinu. Þessi réttur ríkja til efnahagslögsögu leiði til þess að dregið hafi úr mikilvægi aðlæga beltisins.
Hins vegar verður að benda á að réttindin sem fylgja efnahagslögsögunni taka ekki til þeirra málaflokka er fylgja aðlæga beltinu. Þrátt fyrir að aðlæga beltið feli ekki í sér stækkun á yfirráðasvæði ríkja er hafa tekið sér efnahagslögsögu þá fjölgar málaflokkunum sem ríkin hafa forræði yfir á svæðinu sem aðlæga beltið tekur til.
Í ljósi þess að öryggis- og varnarmál Íslands á friðartímum eru nú alfarið á könnu Íslendinga kemur e.t.v. frekar til greina að taka upp slíkt belti. Með því fengi Landhelgisgæslan rýmri heimildir til eftirlits í veigamiklum málaflokkum. Landi og lýð til heilla.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009