Samkvæmt stjórnarskrá Bangladesh er kjörtímabilið 5 ár. Að því loknu kveður stjórnarskráin um — og þetta ákvæði er einsdæmi í heiminum — að við taki hlutlaus millibilsstjórn skipuð „ábyrgum samfélagsleiðtogum“, svo sem hæstaréttardómurum og prófessorum, sem skuli sjá um að halda kosningar innan þriggja mánaða. Í lok október lauk kjörtímabili ríkistjórnarinnar og við átti að taka stjórn leidd af KM Hasan fyrrverandi forseta hæstaréttar. Stjórnarandstaðan leit svo á að hann væri of hliðhollur sitjandi ríkisstjórn en þetta leiddi til mikilla mótmæla þar sem þúsundir slösuðust og tugir manna létu lífið. Að lokum tók Hasan ekki við stjórninni heldur skipaði forseti landsins (sem er í svipað valdamiklu embætti og forsetinn er á íslandi) sig sjálfan í embætti forsætisráðherra millibilsstjórnarinnar og gekk þannig framhjá ákvæðum stjórnarskrárinnar.
Að halda kosningar í Bangladesh er meira en lítið mál. Í landinu búa einhverstaðar á milli 140 og 150 milljónir en engin heilstæð þjóðskrá er til. Fimm ára gömul kjörskrá inniheldur milljónir nafna sem ekki eiga þar heima og að sama skapi vantar í hana margar milljónir sem ættu að vera þar. Flestir kjósendur eiga ekki nein skilríki og aðeins um 40% af þjóðinni er læs.
Það er margt sem stendur pólitískum framförum í Bangladesh fyrir þrifum. Fyrir utan augljósar ástæður eins og hversu lágt hlutfall þjóðarinnar er læs eru ástæðurnar kannski helst tvær. í fyrsta lagi er spilling mjög mikil; landið hefur vermt síðustu sæti lista Transparency International síðustu ár með löndum eins og Chad, Sudan, írak og Míanmar. Í öðru lagi er persónuleg óvild milli þeirra sem leiða tvær helstu stjórnmálahreyfingarnar mjög mikil. Þessar hreyfingar, Bangladesh Nationalist Party og Bangladesh Awami League, eiga það sameiginlegt að vera leiddar af tveimur konum sem hafa verið tengdar — önnur sem dóttir og hin sem eiginkona — fyrrverandi forsætiráðherrum sem báðir voru myrtir af pólitískum andstæðingum. Stjórnarandstaðan, leidd af Awami League, tók ekki þátt í síðustu kostningum og sakaði skipuleggjendur kosninganna um svindl og spillingu. Það mætti kannski segja að verkefni íslenskra stjórnmálamanna að koma á „breiðri pólitískri samstöðu“ hljómi eins og barnaleikur í samanburði við sambærileg markmið í Bangladesh.
Samkvæmt stjórnarskránni átti að halda kosningar fyrir 23. janúar, þ.e. síðastliðinn þriðjudag, en engar kosningar virðast í nánustu augsýn. Vegna mikilla mótmæla hefur forsetinn sagt af sér sem forsætisráðherra millibilsstjórnarinnar og bankastjóri seðlabankans, Fakhruddin Ahmed, tekið við. Neyðarástandi hefur verið lýst í landinu og herinn vaktar núna mikilvæga staði.
En nýji forsætisráðherrann hefur, vegna afburða hæfni og ímyndar hlutleysis, gefið fólki nýja von um sanngjarnar kosningar. Kosningaeftirlitsfólk frá Evrópusambandinu og Sameinuðu Þjóðunum, sem höfðu yfirgefið landið fyrr í mánuðinum, eru á leiðinni til baka. Vonandi tekst nýja forsætisráðherranum að keyra í gegn nauðsynlegar breytingar svo að halda megi sanngjarnar kosningar sem báðar fylkingar geta sætt sig við. Fátt væri betra fyrir fátækt fólk í Bangladesh sem þarf á því að halda að hagkerfið fái að þróast í friði fyrir pólitískum erjum.
- Við, þau og loftslagsbreytingar - 20. júní 2007
- Veðjað á þakið - 24. mars 2007
- Kosningar í Bangladesh - 27. janúar 2007