Efnahagslögsagan

„Eins og allir vita lauk þessum þremur þorskastríðum öllum á einn veg: Með fullum sigri Íslendinga. Stefna þeirra sigraði einnig á alþjóðavettvangi, þrátt fyrir mjög harða andstöðu margra voldugra þjóða.“

„Eins og allir vita lauk þessum þremur þorskastríðum öllum á einn veg: Með fullum sigri Íslendinga. Stefna þeirra sigraði einnig á alþjóðavettvangi, þrátt fyrir mjög harða andstöðu margra voldugra þjóða.“ Með þessum orðum er endalokum Þorskastríðanna lýst á vefsíðu Landhelgisgæslunnar. Sú hugmynd að stefna Íslendinga hafa sigrað á alþjóðavettvangi er athyglisverð. Þar er að öllum líkindum átt við þróun hafréttarins á áttunda áratugnum og útkomu þriðju hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, eins og hún birtist í V. kafla hafréttarsamningsins sem fjallar um efnahagslögsögu. Umrædd orð sem viðhöfð eru á vefsíðu Landhelgisgæslunnar gefa hins vegar of einfalda mynd af þessum atburðum.

Áhrif Íslands á þróun hafréttarins á 20. öld eru ekki eins mikil og oft er af látið. Sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson hefur bent á að Íslendingar hafi aldrei ráðið úrslitum á alþjóðavettvangi á árabilinu 1948 til 1976 og nær örugglega væri í gildi 200 sjómílna efnahagslögsaga hér og annars staðar þótt Íslendingar hefðu engin Þorskastríð háð. Í þessu samhengi er rétt að benda á að forseti Chíle lýsti yfir 200 sjómílna landhelgi árið 1947 fyrir hönd ríkisins, 28 árum fyrr en íslenska ríkið lýsti yfir 200 sjómílna fiskveiðilögsögu. Fleiri ríki í S-Ameríku fylgdu í kjölfarið. Það voru því fleiri sem gengu hart fram í þessum málaflokki en íslenska ríkið, þótt það hafi sjaldan verið látið í veðri vaka í íslenskri þjóðmálaumræðu.

Árið 1973 hófst þriðja hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna. Á henni var tekist á um viðfangsefni sem snertu og snerta íslenska hagsmuni afar mikið, m.a. forgangur strandríkja til náttúruauðlinda utan landhelginnar. Samningaferlið tók níu ár og voru 164 ríki skráð til leiks. Auk þeirra sóttu ráðstefnuna sex lönd með takmarkaða stjórn í eigin málum, átta þjóðfrelsishreyfingar, tólf sérhæfðar stofnanir Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, nítján alþjóðastofnanir, fjölmargar hálfsjálfstæðar einingar innan Sameinuðu þjóðanna auk frjálsra félagasamtaka (NGO’s). Ráðstefnan glímdi alls við 25 málaflokka. Einn þeirra var það sem var nefnt efnahagslögsöga.

Hafréttarstefna ríkja mótast að verulegu leyti af landfræðilegum þáttum. Landfræðilegum þáttum eins og lögun og lengd strandlengju, víðáttu landgrunns, nálægð nágrannaríkja og hvort aðlægt haf eða hafsbotn sé ríkur af auðlindum. Auk þess mótast stefnan af stærð kaupskipaflota og styrk sjóhers, samskipti ríkja við nágrannaríki og því hverjir hernaðarlegir bandamenn þeirra eru. Í samræmi við það mynduðu ríki á hafréttarráðstefnunni, sem áttu svipaðra hagsmuna að gæta, með sér bandalög. Á hafréttarráðstefnunni skipaði Ísland sér fyrst og fremst í tvær blokkir, þ.e. strandríkjablokkina og breiðgrunnsríkjablokkina, sem skýrist einkum af landfræðilegum ástæðum. Strandríkjablokkin var mynduð af 76 strandríkjum. Hún var aðallega mynduð til að berjast fyrir sem mestri lögsögu strandríkja á höfunum og til að berjast gegn sjónarmiðum landluktra og landfræðilegra afskiptra ríkja. Síðarnefnda blokkin var mynduð af 55 ríkjum, vanþróuðum sem og þróuðum. Landlukt og landfræðilega afskipt ríki beittu sér einkum gegn stækkun lögsögu strandríkja, t.a.m. gegn hugmyndinni um efnahagslögsögu. Breiðgrunnsríkjablokkina mynduðu 13 ríki. Helstu baráttumál þessa hóps var að strandríki fengu nýtingarrétt yfir landgrunninu utan 200 sjómílna.

Almennt er talið að niðurstaða þriðju hafréttarráðstefnunar hafi verið strandríkjum í hag. Með hliðsjón af ofangreindu er því nokkur einföldun að halda því fram að stefna Íslendinga hafi sigrað á alþjóðavettvangi eins og gert er á vefsíðu Landhelgisgæslunnar. Það er réttara að halda því fram að sjónarmið strandríkja hafi haft betur á þriðju hafréttarráðstefnunni og þar með þau sjónarmið sem íslensk stjórnvöld beittu sér fyrir að næðu fram að ganga.