Við í vestrænum heimi teljum okkur vera vel upplýst og erum í óðaönn að reyna að hjálpa þriðja heims ríkjum að losa sig undan fátækt, hungri og sjúkdómum. En er raunin sú að við séum búin að fræða landsbúa nóg? Þarf ekki meiri fræðslu? Nýlega birtist könnun í Bretlandi um það að sjö af hverjum 10 konum í Bretlandi telja að engin hætta sé á því að þær smitist af HIV veirunni.
Samkvæmt könnunni virðist ekki vera að konur í Bretlandi líti á öruggt kynlíf sem eitthvað sem skipti þær máli. Könnunin sýnir fram á að um 92% kvenna telur ónauðsynlegt að hafa smokk meðferðis þegar farið sé út á lífið. 14% þeirra kvenna telja það vera skyldu karlmanna að vera með smokk á sér, sami fjöldi taldi jafnframt að konur sem gengu með smokk á sér væru auðveldar og lauslátar. En þá hlýtur næsta spurning að vera eru þessar konur þá að spyrja sína kynlífsfélaga um þeirra kynlífssögu? Nei því aðeins 32% þeirra kvenna sem tóku þátt í könnunni sögðust gera það.
En hver er ástæðan fyrir því að konur telji sig ekki í hættu fyrir því að fá HIV? Í Bretlandi einu og sér eru 63.500 manns sýktir af HIV en einn af hverjum þremur veit ekki af því. Fyrir mér er augljóst að vandamál er til staðar í Bretlandi sem þarf að taka á. Yusef Azad stjórnandi Bresku alnæmissamtakana segir að því miður hefur Bretland ekki lagt nægilega upp úr fræðslu í skólum, fræðslu um HIV veiruna og þá jafnframt almenna kynfræðslu. Lítil fræðsla hefur beina tengingu til fáfræði.
Margar þessa kvenna halda að hættan sé einungis hjá samkynhneigðum karlmönnum og Afríkubúum en staðreyndin er bara sú að veiran er að dreifast hratt á meðal kvenna í stórum vestrænum borgum. Því er augljóst að nauðsynlegt er að Bretar vakni til lífsins og sjái að hver sem kynhneigð þín er og hvar sem þú býrð þá er HIV alls staðar og mikilvægt að vera varinn.
Á Íslandi hafa alls 184 greinst með HIV en 57 greinst með alnæmi og 36 látist af völdum sjúkdómssins. En ef litið er á heiminn allan þá eru yfir 40 milljónir manna sem eru sýkt af HIV, 4,3 milljónir nýrra sýkinga komur fram árið 2006 og næstum 3 milljónir sem létu lífið. Baráttan við HIV er langt frá því að vera búin og því mikilvægt að muna að setja öryggið á oddinn.
- Óður til Dollýar - 29. júlí 2021
- Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna - 9. júní 2021
- Þegar mennskan hverfur - 26. apríl 2021