Loftárásir Atlantshafsbandalagsins á Júgóslavíu hafa nú staðið í 53 daga. Þeir sem gagnrýna NATO fyrir árásirnar verða sífellt háværari og virðast atburðir síðustu daga og vikna benda til að sú gagnrýni eigi við rök að styðjast. Fjöldi óbreyttra borgara hefur fallið fyrir hendi NATO og skýringar talsmanna bandalagsins á árásinni á kínverska sendiráðið eru grátbroslegar. Spurningar hljóta því að vakna um gagnsemi árásanna en í þeirri umræðu verður mönnum oft á að einfalda hlutina um of.
Því er iðulega haldið fram að ástandið í Kosovo sé snöggtum verra en það var áður en loftárásir NATO hófust. Þetta er hárrétt en segir þó aðeins hálfa söguna. Menn verða að bera saman tvær mismunandi atburðarásir ef skoða á málið í réttu ljósi. Annars vegar hina raunverulegu atburðarás og hins vegar þá atburðarás sem líklega hefði orðið. Samanburður við ástandið fyrir loftárásirnar er ekki tækur, því afar ólíklegt verður að telja að óstandið í Kosovo hefði haldist óbreytt.
En það sem helst er gagnrýnisvert við stefnumörkun NATO í Kosovo-stríðinu er hugleysi helstu forystumanna bandalagsríkjanna og hlýðni þeirra við skoðanakannanir. Svo virðist sem helsta markmiðið í upphafi árásanna hafi verið að halda manntjóni NATO í lágmarki og ótti leiðtoga bandalagsins við mannfall í landhernaði er helsta vopn Milosevic í stríðinu. Er einhver skynsemi í því að hefja stríð með það að aðalmarkmiði að missa ekki einn einasta mann? Fyrir hverja og hvað er þá verið að berjast?
Ef einhvern lærdóm má draga af hernaðaraðgerðum NATO þá er hann þessi: Stríð ætti eingöngu að heyja ef menn eru svo vissir um málstað sinn að þeir séu tilbúnir til að fórna blóði á altari hans.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021