Athygli fjölmiðla beinist nú mjög að viðræðum stjórnarflokkanna um áframhaldandi stjórnarsamstarf. Það er í takt við fréttamat þeirra flestra, að mestum tíma er varið í fjalla um hverjir skipa munu ráðherrastóla en ekki hvaða málum ríkisstjórnin mun beita sér fyrir. Það nýjasta er að hugsanlega verði ráðherrum fjölgað úr tíu í tólf.
Guðmundur Árni Stefánsson, 2. þingmaður Samsuðunnar í Reykjaneskjördæmi, var í einkaviðtali við Róbert Marshall, fyrrum leiðtoga ungra Samsuðunga og nú algjörlega hlutlausan fréttamann á Stöð 2, um hugsanlega fjölgun ráðherra. Komst Guðmundur þannig að orði að fjölgunin væri einungis til þess að finna stóla undir þá þingmenn sem vildu setjast í ráðherraembætti og myndi kosta ríkissjóð stórfé.
Nú eru aðstandendur Deiglunnar ekki áhugamenn um útþenslu ríkisbáknsins og því hægt að taka undir gagnrýni á fjölgun ráðherra. Það er þó vert að rifja upp embættisverk Guðmundar sjálfs er hann sat á ráðherrastóli; hans er helst minnst fyrir að finna embættisstóla handa vinum og vandamönnum sem vildu setjast í góð og vel launuð embætti. Ef minni okkar Deiglumanna bregst ekki, þá hrökklaðist Guðmundur Árni einmitt úr embætti vegna slíkra stöðuveitinga.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021