Innovit

Nýverið var Innovit stofnað af nokkrum stúdentum við Háskóla Íslands sem allir eiga það sameiginlegt að starfa innan Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta. Innovit er hugmynd stúdenta að nýsköpunar- og frumkvöðlasetri við Háskóla Íslands.

Í stúdentum við Háskóla Íslands býr mikill kraftur og frumkvæði sem mikilvægt er að virkja. Í Háskólasamfélaginu og þjóðfélaginu öllu býr að sama skapi mikil þekking og reynsla sem mikilvægt er að virkja. Undanfarna mánuði hefur hópur núverandi og fyrrverandi nemenda við Háskóla Íslands unnið að undirbúningi að stofnun Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetri við Háskóla Íslands. Innovit mun brúa bilið milli nemenda, Háskólasamfélagsins og íslensks atvinnulífs. Þar með verður nemendum auðveldað að taka fyrsta skrefið í átt að stofnun sprotafyrirtækja – og jafnframt verður aðgengi atvinnulífsins að háskólamenntuðum frumkvöðlum stóraukið. Þrátt fyrir að megin áherslan verði lögð á stúdenta og háskólamenntaða einstaklinga er það stefna undirbúningshópsins að Innovit verði öllum frumkvöðlum opið.

Stefna Innovit er að starfa náið með þeim fyrirtækjum og stofnunum sem nú þegar starfa á sviði nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi til þess að ná markmiðum félagsins. Þessi markmið eru:

  • Að auka nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi nemenda við Háskóla Íslands.
  • Að auka virkni hins íslenska þekkingarsamfélags og stuðla að aukinni nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi háskólamenntaðra einstaklinga.
  • Að takmarka þá áhættu sem felst í því að stofna ný fyrirtæki með þjálfun, aðstoð, aðkomu og ráðgjöf sérfræðinga.
  • Auka aðgengi íslenskra fyrirtækja og tengsl þeirra við framúrskarandi nemendur og sprotafyrirtæki.

    Þrátt fyrir að nokkur góð fyrirtæki og stofnanir vinni að uppgangi nýsköpunar á Íslandi virðist sem fyrsta skrefið fyrir hugmyndaríka frumkvöðla sé oft á tíðum of stórt og ungir frumkvöðlar eigi oft erfitt með að átta sig á nýsköpunarumhverfinu á Íslandi og þeim möguleikum sem í boði eru. Þessu til rökstuðnings má meðal annars benda á að samkvæmt GEM (Global Enterpreneurship Monitor), alþjóðlegri rannsókn sem gerð var árið 2005 kemur í ljós að hlutfall háskólamenntaðra frumkvöðla á Íslandi er sláandi lágt miðað við aðrar hátekjuþjóðir. Innovit mun starfa af miklum krafti til að bæta úr þessu og mun í náinni framtíð verða hringiða hugmyndaflugs og framkvæmdagleði nemenda og sem og annarra frumkvöðla. Vonir standa einnig til þess að setrið verði hluti af þeirri þekkingarmiðju og vísindasamfélagi sem fyrirhugaðir Vísindagarðar í Vatnsmýrinni munu verða.

    Til þess að ná markmiðum Innovit um aukna nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi er lykilatriði að vinna að markmiðunum út frá nokkrum mismunandi útgangspunktum og hvetja til nýsköpunar á öllum stigum háskólanáms og á öllum stöðum í atvinnulífinu. Lögð verður mikil áhersla á hvetjandi umhverfi, framúrskarandi og reynslumikla starfsmenn og tengsl á milli nemenda úr ólíkum áttum annarsvegar og tengsl á milli sprotafyrirtækja og atvinnulífsins hinsvegar. Með þessa aðferðarfræði að leiðarljósi mun starfsemi InnoVit samanstanda af þremur megin einingum:

  • Aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki
  • Fræðslu, fyrirlestrum og námskeiðum
  • Sumarvinnu við nýsköpun

    Á vegum Innovit verða starfandi sérfræðingar í stofnun fyrirtækja og mótun nýrra hugmynda sem munu vinna markvisst að því að ná hámarksárangri á öllum þremur sviðum starfseminnar. Einungis með samþættingu þessarra þátta mun Innovit og íslenskt þjóðfélag í heild sinni ná árangri á sviði nýsköpunar til framtíðar.

    Aðstaða fyrir sprotafyrirtæki
    Hjá Innovit munu nemendur og aðrir frumkvöðlar geta fengið aðgang að húsnæði, tækjabúnaði og sérfræðiþekkingu til að vinna að stofnun fyrirtækja og brúa bilið frá námi til hagnýtingar. Lagt verður upp með að vinnuaðstaðan verði opin og hvetjandi og þar muni hinn eini sanni frumkvöðlaandi ná að festa rætur. Einnig munu frumkvöðlar hafa aðgang að reynslumiklum starfsmönnum Innovit sem geta hlúið að sprotfyrirtækjunum og verið þeim ráðgefandi.

    Fræðsla, fyrirlestrar og námskeið
    Það er ekki nægjanlegt að bjóða einungis upp á góða aðstöðu fyrir unga frumkvöðla. Starfsmenn Innovit munu vinna markvisst að því að kynna starfsemina jafnt fyrir nemendum, Háskólasamfélaginu og atvinnulífinu til að auka og efla vitneskju fólks um þá möguleika sem nýsköpun hefur í för með sér. Þetta verður gert með markvissum fyrirlestrum, heimsóknum í nýsköpunartengd námskeið í skólum, námskeiðum fyrir almenning og glæsilegum ráðstefnum þar sem íslenskir og erlendir frumkvöðlar munu tala sínu máli.

    Sumarvinna við nýsköpun
    Þriðja meginstoðin í Innovit verður sumarvinna við nýsköpun. Hugmyndin er að nemendur á yngri námsárum geti fengið sumarvinnu við að vinna nýsköpunarhugmynd eða viðskiptaáætlun. Slík starfsemi myndi vera tvíþætt; annars vegar eigin hugmyndir stúdenta og hins vegar hugmyndir sem unnar eru í samstarfi við fyrirtæki. Sumarvinna sem þessi myndi virkja gífurlega hvetjandi á nemendur í grunnnámi, enda væru þeir hluti af því skapandi umhverfi sem ætti sér stað í InnoVit og myndu sjá eldri frumkvöðla að störfum í raunverulegu umhverfi.

    Auk fyrrgreindra þriggja meginsviða mun stjórn Innovit gegna lykilhlutverki sem þungamiðja framþróunar í nýsköpun á háskólastigi í þjóðfélaginu. Stjórninni til halds og trausts verður síðan ráðgjafaráð, skipað helstu sérfræðingum á sviði nýsköpunar úr Háskólasamfélaginu og atvinnulífinu.

    Innovit mun opna áður óþekkt tækifæri fyrir nemendur, Háskólann og atvinnulífið í landinu. Það er því mjög mikilvægt fyrir framþróun nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi á Íslandi að allir aðilar taki sig saman um að leyfa hugmyndinni og framkvæmd hennar að þróast áfram, með opnum huga varðandi þá möguleika, hugmyndir og fjárfestingatækifæri sem Innovit mun hafa í för með sér.

    www.innovit.is

    Greinin hér að ofan birtist einnig í tímariti Rannsóknadaga Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

    Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)