International politics, like all politics, is a struggle for power. Whatever the ultimate aims of international politics, power is always the immediate aim. (Hans Morgenthau)
|
Um þessar mundir er mjög móðins að ræða umbætur á starfi Sameinuðu þjóðanna. Í því samhengi nefna menn og konur iðulega þörfina fyrir að fjölga aðildarríkjum sem eiga sæti í öryggisráði samtakanna og jafnvel þeim ríkjum sem geta beitt neitunarvaldi. Sú hugmynd að fjölga ríkjum með neitunarvald er illframkvæmanleg og þar að auki óskynsamleg.
Margur hefur bent á að heimurinn líti ekki eins út og hann gerði fyrir rúmlega 60 árum. Nokkuð virðist til í því. Hinir sigruðu eru komnir sterkir til baka og vilja sæti við borð hinna útvöldu í alþjóðakerfinu. Reyndar eru fleiri sem banka á dyrnar, einkum Indland og Brasilía. Þessum nýju og endurholdguðu stjörnuleikmönnum á leiksviði alþjóðastjórnmálanna hefur hins vegar ekki verið hleypt inn í klúbbhúsið en blikur eru á lofti.
Nokkuð algengt er að heyra nokkuð skynsamt fólk tala um að sniðugt sé að fjölga ríkjum með neitunarvald í öryggisráðinu. Þá einkum til að Sameinuðu þjóðirnar endurspegli betur hið svokallaða „alþjóðasamfélag“. Ólíklegt er að nokkuð verði úr þeim hugmyndum. Samkvæmt 1. tl. 23. gr. sáttmála hinna sameinuðu þjóða skipa öryggisráðið fimmtán meðlimir samtakanna og eiga Kína, Frakkland, Sovétríkin, Bretland og Bandaríkin fast sæti í ráðinu. Í 108. gr. sama sáttmála er kveðið á um að tillögur til breytingar á sáttmálanum skuli ganga í gildi fyrir alla meðlimi hinna sameinuðu þjóða, þegar þær hafa verið samþykktar með atkvæðum tveggja þriðju hluta af meðlimum allsherjarþingsins og staðfestar samkvæmt stjórnskipunarvenjum hvers um sig af tveim þriðju hlutum meðlima hinna sameinuðu þjóða, þar með taldir allir fastir meðlimir öryggisráðsins.
Heldur einhver virkilega að Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland muni öll ákveða að það sé sniðugt að minnka völd sín í voldugustu stofnun Sameinuðu þjóðanna sem ber aðalábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis? Slíkt er algjör óskhyggja ef ekki firra.
Það er ekki einungis ólíklegt að slíkar breytingar nái í gegn heldur eru þær einnig óskynsamlegar, þ.e. ef skilvirkni Sameinuðu þjóðanna er höfð að leiðarljósi. Heldur fólk virkilega að fleiri mál komist í gegnum öryggisráðið með því að fjölga ríkjum sem geta beitt neitunarvaldi? Slíkt verður að teljast nokkuð órökrétt ef höfð er í huga sú realpolitik sem iðulega er ástunduð innan veggja ráðsins.
Einhverjum kann að þykja þetta nokkuð kaldrifjað sjónarmið. Heimur alþjóðastjórnmálanna er hins vegar kaldur og hugtök á borð við sanngirni og jafnræði koma að takmörkuðum notum við að kryfja þau. Hljómfagrar lausnir eins og fjölgun ríkja með neitunarvald í öryggisráðinu eru hins vegar ólíklegar til árangurs og munu að öllum líkindum vinna gegn skilvirkni í alþjóðakerfinu. Ekki viljum við það.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009