Hinn svokallaði byggðakvóti sem úthlutað er þessa dagana til einstakra byggðalaga á landsbyggðinni hefur vakið upp af værum svefni drauga liðinna ára. Pólitísk úthlutun verðmæta af þessu tagi taldi Deiglan að heyrði sögunni til. Þrátt fyrir góða trú og göfugan tilgang leiðir það aldrei til góðs, að stjórnmálamenn hafi bein afskipti af málefnum einstaklinga. Slíkt býður mismunun, spillingu, sóun og óréttlæti heim.
Hvers eiga þeir t.a.m. að gjalda sem reynt hafa að aðlaga sig kerfinu og keypt til sín kvóta fyrir mikla fjármuni, ef „góðhjartaðir“ stjórnmálamenn taka síðan allt í einu upp á því að úthluta kvóta ókeypis til annarra. Þarna birtist loksins hinn raunverulegi gjafakvóti, sem svo ítrekað var lýst í aðdraganda kosninga sl. vor.
Stöðugt berast af því fréttir að úthlutunin valdi óróa og óstöðugleika. Fyrir vestan keyptu nokkrir bæjarstjórnarmenn kvóta í fyrirtæki skömmu áður en því var úthlutaður byggðakvóti og á Ólafsfirði hyggst fyrirtæki eitt bregða búi, því forsvarsmenn þess höfðu reiknað með að fá byggðakvóta en fengu ekki.
Vonandi sýnir þessi reynsla mönnum fram á það, að eðlilegast er að markaðsöflin fái notið sín, því verðgildi markaðarins er óháð pólitískum duttlungum og annarlegum sjónarmiðum. Það er blint og hlutlægt, eins og réttvísin sjálf.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021