Sjónvarpsstöðin SKJÁREINN hóf göngu sína í síðustu viku og hefur Deiglan fylgst spennt með. Þótt margt megi gagnrýna og að sumu megi skopast, verður að segjast að byrjunin lofar góðu. Sérstaklega mælir Deiglan með spjallþætti Egils Helgasonar, Silfur Egils, þar sem þjóðmálin eru rædd tæpitungulaust og með frísklegu yfirbragði.
Í gærkvöldi var endursýndur þáttur Egils frá því fyrr um daginn og var hreint kostulegt að fylgjast með umræðum þeirra Egils, Andrésar Magnússonar og Ögmundar Jónassonar. Um tíma snérist þátturinn um gamlar syndir Ögmundar og viðurkenndi hann þá að sér hefði um tíma þótt fátt betra en að keðjureykja í bíósölum á Englandi. Ögmundur taldi þessa háttsemi sína til marks um að ríkisvaldið þyrfti að hafa vit fyrir fólki með boðum og bönnum. Deiglunni hrís hugur við umhugsunina um aðrar syndir Ögmundar á námsárunum, sem hann hefur til viðmiðs um hvar lagasetningar er þörf.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021