Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur Stoke-málinu s.k. og málefnum íslenska landsliðsins verið siglt í höfn. Starfslok Guðjóns Þórðarsonar voru gerð í sátt og samlyndi um síðustu helgi og þóttu hann og Eggert Magnússon, formaður KSÍ, komast nokkuð vel frá því. En Deiglan telur tilefni til vangaveltna þótt allt sýnist slétt á yfirborðinu.
Mánudaginn 24. október bárust þær fréttir að Stoke-málið væri úr sögunni. Af hverju gerði KSÍ Guðjóni ekki tilboð um áframhaldandi starf á þeim þremur sólarhringum er sýnt þótti að Stoke-málið væri úr sögunni? Formaður KSÍ hafði haldið því fram í fjölmiðlum að beðið væri niðurstöðu í Stoke-málinu áður en Guðjóni yrði gert tilboð. Þarna var niðurstaða fengin og enginn vissi betur en að hún væri endanleg. Fyrst Guðjón var kostur númer eitt í starf landsliðsþjálfara, eins og formaður KSÍ lýsti yfir á blaðamannafundi sl. laugardag, hefði þá ekki verið eðlilegt að gera honum tilboð, þar sem ljóst þótti að ekkert yrði úr því að hann færi til Stoke?
Samt kom ekkert tilboð frá KSÍ, enda formaður sambandsins allt í einu í miklum bobba. Hann hafði stólað á að Guðjón færi til Stoke áður en ganga þyrfti frá ráðningu landsliðsþjálfara. Þá þyrfti formaðurinn ekki taka þá óvinsælu ákvörðun að framlengja ekki samninginn við Guðjón. Málið er nefnilega að það stóð aldrei til af hálfu KSÍ að framlengja samninginn og hlýtur það að teljast með ólíkindum í ljósi árangurs Guðjóns með landsliðið. Þessi atburðarás sýnir svo ekki verður um villst, að núverandi forystumenn KSÍ hafa mestan áhuga á vexti og viðgangi sambandsins sem slíks, en ekki framgangi íslenskrar knattspyrnu.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021