Fyrir tveimur árum kom út bók eftir lækni nokkurn. Bókin hét Sálumessa syndara og olli hún nokkru fjaðrafoki. Deiglunni virðist óheppilegt að þetta heiti skuli hafa verið notað á þessa tilteknu bók, því það hefði svo miklu fremur átt við um æviminningar Steingríms Hermannssonar, en annað bindi þeirra er nýútkomið. Í fyrra bindinu lýsti Steingrímur því fjálglega þegar hann, sonur forsætisráðherra Framsóknar, keypti sér jeppa á tímum skömmtunar og hafta þegar sérstök leyfi og gildar ástæður þurfti fyrir slíkum kaupum. Var jeppinn skráður sem landbúnaðartæki á bónda í Borgarfirði. Höftin voru nefnilega bara fyrir almenning og hann var ekki í Framsóknarflokknum, hvað þá var hann sonur forsætisráðherrans.
En í öðru bindinu er Steingrímur orðinn formaður Framsóknar og forsætisráðherra í þokkabót. Óþarft er rekja syndir Steingríms á valdastóli en í bókinni lætur hann eins og dæmigerður alkóhólisti; gumar af spillingu sinni en fordæmir hana í sama orðinu. Ævifrásögnin er því greinilega eins konar meðferðarúrræði í tilviki Steingríms; tilraun fyrrverandi stjórnmálamanns til að sættast við fortíðina; sálumessa syndara.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021