Vandræðum Framsóknarmanna virðast engin takmörk sett. Enn eitt innabúðarklúðrið er nú í uppsiglingu með ráðherraembætti Páls Péturssonar, sem Valgerður Sverrisdóttir telur sig eiga tilkall til. Grundvöllur þessa tilkalls Valgerðar er samningur eða samkomulag sem forystumenn flokksins eiga að hafa gert við stjórnarmyndum sl. vor. Samkvæmt því samkomulagi átti Páll að víkja fyrir Valgerði nú um áramótin. En Páll hefur engan áhuga á því og neitar því að nokkuð samkomulag hafi verið gert.
Það vakti því sérstaka athygli Deiglunnar er Árni Gunnarsson, formaður SUF, varaþingmaður Páls og fyrrverandi aðstoðarmaður hans, lét þau ummæli falla í Silfri Egils nú í hádeginu, að Páll hefði verið hestaheilsu er samkomulagið var gert. Í þessum ummælum Árna liggur því að Páll Pétursson segi ósatt, er hann heldur því fram að ekkert samkomulag hafi verið gert. Þetta er sérstaklega athyglisvert í því ljósi, að Árni er og hefur verið einn nánasti samstarfsmaður Páls. Því miður virtist þessi yfirlýsing fara fram hjá þáttarstjórnanda og öðrum gestum þáttarins, en fróðlegt hefði verið að heyra útskýringar Árna á því, hvernig ummæli hans kæmu heim og saman við yfirlýsingar Páls á síðustu dögum.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021