Ein af jólabókunum í ár er tvímælalaust bókin Lagasafn 1999, sem er framhald metsölubókarinnar Lagasafn 1995. Bók þessi fer þykknandi með árunum og bendir það óneitanlega til sífellt ríkari tilhneigingar löggjafans til íhlutunar í daglegt líf þegnanna. Nokkur umræða hefur orðið á síðustu misserum um þessa miklu lagasmíð og réttilega bent á að hún er að mestu í höndum embættismanna og fagaðila, sem heyra í flestum tilvikum undir framkvæmdavaldið.
Mjög rík er sú tilhneiging að setja þurfi lög um allt það sem sett lög taka ekki þegar til. Með settum lögum er átt við lög sem Alþingi setur og lúta bæði skráningu og birtingu. Það vill oft gleymast að lög geta gilt á tilteknu réttarsviði, þótt settum lögum sé ekki til að dreifa, t.a.m. venjuréttur og dómafordæmi. Í slíkum tilvikum tala „lagasetningarsinnar“ oft um nauðsyn þess að eyða réttaróvissu með lagasetningu. Ágætt dæmi um slíkt eru lög nr. 78 frá 1993 um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum…
En það sem kannski er kyndugast í þessu öllu saman, að þeir alþingismenn, sem hæst tala um að Alþingi sé að verða stimpilstofnun í lagasetningu, eru einmitt þeir sem heimta lagasetningu um allt milli himins og jarðar. Að þeirra mati er ekkert svo smávægilegt að ekki þurfi „að setja um það heildarlög.“ Þá liggur auðvitað beinast við að fjölga þingmönnum þjóðarinnar, en Íslendingar eiga auðvitað nú þegar heimsmet í fjölda þingmanna á hverja þúsund íbúa. Hugsa mætti sér að setja lög um að fjöldi þingmanna skuli aldrei fara undir hlutfallið einn á móti hverjum þúsund íbúum. Þá ættum við 275 þingmenn og gætum auðveldlega teflt fram A-, B- og C-liði næst þegar við etjum kappi við Færeyinga á knattspyrnuvellinum.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021