Það er auðvitað að bera í bakkafullan lækinn að minnast á virkjunarmálin ægilegu hér í Deiglunni. En áhugaverð hlið málsins var dregin fram af Davíð Oddssyni í Silfri Egils í gær. Kom það fram í máli Davíðs að lón hefði verið á Eyjabökkum til forna af náttúrunnar völdum. Þannig mætti hugsa sér að með því að sökkva Eyjabökkum á ný væri verið að endurheimta dýrmæta náttúruperlu, Jökullónið á Fljótsdal. Benti forsætisráðherrann á að þegar lónið væri komið þarna á ný, yrði aðgangur ferðamanna að svæðinu mun greiðari og minni hætta á náttúruröskun, því farið yrði um á bátum. Umhverfi lónsins yrði auðvitað hið sama og núverandi graslendis á Eyjabökkum og við bátsverjum myni því blasa stórfengleg fjallasýn.
Þetta sjónarmið er mjög áhugavert, sérstaklega út frá almennri umræðu um náttúruperlur landsins. Aðgengi að þeim er víðast hvar ófullnægjandi og beinlínis til lýtis. Ef marka má þann stórkostlega áhuga fólks á Eyjabökkum, eftir mikið kynningarstarf síðustu mánuði, er ekki óvarlegt að áætla að innlendir og erlendir ferðamenn þangað myndu skipta tugum þúsunda á ári ef ekki yrði af virkjunarframkvæmdum. Ekki er víst að heiðargæsirnir kynnu að meta slíka ágang og líklega hyrfu þær fljótlega af svæðinu. Þá þarf ekki að fara mörgum orðum um skaðann sem allur þessi átroðningur ylli á hinu ósnortna víðerni.
Málið snýst því ekki lengur um að það, hvort Eyjabökkum megi fórna í efnahagslegum tilgangi, heldur er það hreinlega brýnt umhverfismál, að Eyjabökkum verði sökkt.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021