Það er líklega ekki ofsögum sagt að íslenskur landbúnaður sé á villigötum. Einhver bölvun virðist hvíla yfir þessari atvinnugrein, sem mátt hefur þola í senn harðneskju náttúraflanna og heimsku stjórnmálamanna. Deiglan leiddi hugann að nokkrum atriðum líðandi stundar sem varpa ljóstýru á fullyrðingu fyrsta málsliðar.
Í fyrsta lagi standa fyrir dyrum, eða réttara: eru yfirvofandi, nýir búvörusamningar. Það eru einkennilegir samningar þar sem annar aðilinn, ríkisvaldið, greiðir hinum aðilanum, bændum, einhliða milljarða króna. Eða kannski ekki einhliða, heldur gegn því að vera til, og stundum m.a.s. gegn því að hætta að vera til sem slíkir.
Í öðru lagi ákveða stjórnvöld að eyða tugum milljóna í hestamiðstöð í Skagafirði, á sama tíma og hrossaræktendur annars staðar á landinu hafa verið að safna hlutafé til að reisa sambærilega miðstöð. Það er dæmigert fyrir landbúnaðarstefnuna síðustu áratugi, að þeim, sem ekki virðast geta staðið á eigin fórum, er komið til bjargar, þótt það geri að engu frumkvæðisvilja þeirra, sem hann hafa.
Í þriðja lagi hlýtur styrkjakerfið að koma til endurskoðunar í ljósi breyttra neysluvenja almennings. Sem dæmi má taka, að ein rolla gefur af sér um 15 kg. af lambakjöti á ári að meðaltali (þ.e. afkvæmi hennar) en hver gyllta er sögð gefa af sér um 1200 kg. af svínakjöti árlega að meðaltali. Engan reiknimeistara þarf til að sjá hvor framleiðslan er hagkvæmari. Til að halda uppi sölu á lambakjöti er neysluvenjum fólks handstýrt með miklum jöfnunarkostnaði. Lambakjöt er vissulega ljúffengt og þess vegna á það seljast sem munaðarvara. Svínabændur eiga hins vegar að fá að selja sína vöru á eins lágu verði og þeir vilja.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021