Íslendingar tala oft mikið um það hversu rík þjóð við erum en helst er notaður mælikvarðinn Verg landsframleiðsla á mann á ári [1]. Þessi tala gefur ekki rétta mynd af Íslandi og sýnir illa fórnarkostnaðinn við þessa miklu landsframleiðslu á mann á ári.
Ef við skoðum verga landsframleiðslu á mann á klukkustund (sjá hér á heimasíðu Þorvaldar Gylfasonar – ) þá lendir Ísland í miðjum flokki þjóða rétt á undan Spáni og Grikklandi! Íslendingur skapar 35 dollara hverja klukkustund sem hann vinnur, Norðmaður skapar 60 dollara á jafn miklum tíma eða 70% meira!
Þessar tölur lýsa því að það er gríðarleg sóun í hagkerfinu. Mikil vinna á sér stað án þess að verðmæti skapist að sama leyti. Íslendingar eru alls ekki að afkasta nógu miklu á hverja vinnustund. Það þarf að stórauka framleiðni í hagkerfinu, þeas að fá meiri tekjur á hverja vinnustund eða hreinlega að fækka vinnustundum og sjá til hvort við getum ekki haldið sömu framleiðni.
Bandarísk rannsókn á vegum vefsíðunnar Salary.com [1] leiddi í ljós að starfsfólk í Bandaríkjunum sóaði að meðaltali tveimur klukkustundum af vinnunni sinni í að gera eitthvað annað en að vinna. Miðað við framleiðni á Íslandi þá eru íslenskir starfsmenn að minnsta kosti jafn duglegir við að vinna ekki.
Það virðist ríkja þjóðfélagsleg samvinna um að hylma yfir hvort öðru. Hverja er verið að plata? Sjálf okkur hlýtur að vera svarið. Það hlýtur að vera löngu komið inn í launaútreikning fyrirtækja að reikna með þessari fjarveru. Fórnarlömbin í þessu máli eru því væntanlega börn íslendinga sem sjá minna af foreldrum sínum meðan foreldrarnir eru í vinnunni að blogga og þræða barnaland.is.
Það eru tæplega 100 ár síðan það var byrjað að tala í Evrópu um að framleiðni starfsmanna minnkar með lengri vinnudegi (þá var oft miðað við að minnka vinnudag úr 10 niður í 8 tíma) [3]. Þessi tíðindi virðast ekki ennþá hafa borist íslendingum.
Það er löngu kominn tími til þess að fyrirtæki hætti þessari vitleysu að láta fólk hanga fleiri klukkustundir í vinnunni án þess að nokkuð gerist. Hér er ekki þörf á neinni lagasetningu heldur einfaldlega meiri heiðarleika milli vinnuveitanda og starfsmanna. Markmiðið á að vera að hér geti verið mannvænna samfélag þar sem fólk hefur meiri tíma með fjölskyldu sinni á kostnað vinnuviðveru hangandi á netinu.
[1] Höfundur skrifaði smá hugleiðingar varðandi Verga landsframleiðslu og hagvöxt á haustdögum 2006 sem má finna hér
[2] Könnunina má finna hér:
[3] Sidney Chapman birti í September árið 1909 ritgerðina hours of labour þar sem hann benti á að framleiðni minnkar eftir því sem starfsmaður er lengur í vinnu. Ritgerðina má finna hér:.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021