Átök innan Frjálslynda flokksins undanfarnar vikur og mánuði hafa líklega ekki farið framhjá neinum. Það boðar sjaldan gott þegar stjórnmálaflokkar nánast klofna þegar forystan er valin, en í þessu tilviki virðist einmitt nokkur hætta á að flokkurinn sleppi ekki óskaddaður.
Landsfundur Frjálslynda flokksins fer fram um næstu helgi og ætla má að baráttan verði hörðust um varaformannsembættið milli Margrétar Sverrisdóttur og Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Margrét hefur þó ekki útilokað að bjóða sig fram til formanns og líklega væri það besti kosturinn fyrir flokkinn.
Núverandi formaður, Guðjón Arnar Kristjánsson gefur kost á sér til áframhaldandi starfa. Hann hefur lýst yfir eindregnum stuðningi við Magnús Þór, hversu skynsamlegt sem það kann að vera.
Magnús Þór hefur ekki látið sitt eftir liggja í því að tala illa um Margréti og færslur á vefsíðu hans eru fróðleg lesning en ber þó að taka með fyrirvara því nokkurrar einstefnu gætir í þeirri umfjöllun. Hann segir átökin í flokknum alfarið sök Margrétar enda þótt hann ásamt formanni flokksins hafi ákveðið að segja henni upp sem framkvæmdastjóra þingflokksins.
Margrét tók þátt í stofnun Frjálslynda flokksins ásamt föður sínum og hefur allar götur síðan unnið afar óeigingjarnt starf í þágu hans. Hún hefur verið í framboði fyrir flokkinn í öllum kosningum sem hann hefur tekið þátt í til þessa og að mati höfundar verið ein af fáum frambærilegum frambjóðendum.
Í hvert sinn sem Margrét kemur fram fyrir hönd flokksins er hún til sóma, kemur vel fyrir og augljóst að hún hefur það sem til þarf til þess að stýra flokki sem þessum. Einmitt þess vegna ætti hún ekki að útiloka formannsframboð þó ekki væri nema hugsanlega samstarfsörðugleika með Guðjón Arnar sem formann, verði hún annars varaformaður.
Frjálslyndi flokkurinn er ekki ýkja stór en hefur þó stækkað nokkuð frá stofnun og skyldi engan undra. Deilur innan flokksins verða þó seint taldar jákvæðar og vel mætti hugsa sér að flokkurinn klofni eða minnki umtalsvert hvernig sem þessi mál verða leidd til lykta. Ákveði Margrét að fara fram á móti Magnúsi og verði varaformaður er líklegt að hann hverfi frá. Svipuð niðurstaða er líkleg ef hún fer fram á móti Guðjóni Arnari og sigrar.
Það má segja að ástandið í Frjálslynda flokknum kristalli allt það sem er að stjórnmálum. Menn takast á, skipa sér í fylkingar innan flokka og vilja flestir sinn hag sem mestan. Þarna gleymist, eins og svo oft í stjórnmálum að enginn einstaklingur er mikilvægari en flokkurinn allur og menn fórna því oft raunverulega meiri hagsmunum fyrir minni.
Það er skoðun höfundar að Frjálslynda flokknum væri best borgið í höndum Margrétar Sverrisdóttur. Núverandi forysta hefur ekki verið sannfærandi og ekki ástæða til þess að ætla að það breytist. Ég skora því á Margréti að bjóða sig fram sem formann flokksins og óska henni góðs gengis á landsfundinum um helgina.
- Siðlaust guðlast - 5. september 2007
- Þess vegna er Laugavegurinn dauður - 6. mars 2007
- Hvað á RÚV að þýða? - 12. febrúar 2007