Á fjórða deginum í sögunni af Jack Bauer er útlit fyrir að hryðjuverkamenn muni sprengja kjarnorkusprengju í bandarískri stórborg. Þegar allt virðist í óefni stefna kemur hryðjuverkavarnadeildin CTU höndum yfir óþokkann Prado sem allt veit um staðsetningu sprengjunnar en er ófús að tala af sér. Hjá CTU kunna menn lag á slíkum kauðum og eru góðir í því að kvelja þá til sagna.
Þegar kemur að því að sannfæra þennan hryðjuverkamann kemur þó babb í bátinn. Samverkamaður óþokkans tekur upp símann og hringir í samtökin „Amnesty Global“ – en af þættinum má skilja að sérstök hryðjuverkamannavakt sé hjá slíkum samtökum og að hryðjuverkamenn séu með neyðarnúmer hjá mannréttindalögfræðingum á hraðvalinu hjá sér. Í þessu tilviki borgaði það sig allaveganna fyrir hryðjuverkamanninn því áður en búið var að taka fram píningartækin var lögfræðingurinn frá „Amnesty Global“ mættur með uppáskrift frá dómara um að leysa ætti hryðjuverkamanninn úr haldi.
Þvílíkt svekkelsi!
Einn samstarfsmaður Bauer, hinn dagfarsprúði tölvusnillingur Edgar Stiles, hafði sama dag misst móður sína í hryðjuverkaárás og var ósáttur: “Ég veit að það er ekki mitt að hlutast til um stefnumál, en að teknu tilliti til þess hvað ég hef gengið í gegnum í dag – að mamma mín sé dáin út af þessum hryðjuverkamönnum…Þá verð ég að vita af hverju við leyfum einhverjum ógeðfelldum lögmanni að vernda skíthæl á borð við Prado.”
Sjónvarpsáhorfandinn sem hefur allar upplýsingar um gang mála og þekkir af reynslu sinni af fyrri afrekum Jacks Bauer að – þvert á allt sem menn hafa lært í raunheimi – þá virka pyntingar mjög vel í störfum CTU.
Af hverju þá að leyfa hinum „ógeðfellda lögmanni“, með sitt mannréttindaraus og stjórnarskrárþus, að halda hlífiskyldi yfir glaðhlakkalegum fjöldamorðingjanum? Ætli áhorfendur Fox, þar sem þættirnir eru sýndir, hafi ekki verið margir á sama máli og Jack þegar hann sagði við þetta tilefni (og ég læt standa óþýtt): “Now, I don’t wanna bypass the constitution, but these are extraordinary circumstances.”
Sannarlega voru þetta sérstakar aðstæður en mannréttindalögmaðurinn hafði engan skilning á því og á endanum neyddist Jack til að segja tímabundið af sér störfum, elta hryðjuverkamanninn út í bíl, brjóta á honum fingurna og fá þannig út úr honum sannleikann og bjarga borginni. Allir sáttir nema sárþjáði hryðjuverkamaðurinn og mannréttindalögmaðurinn barnalegi.
Þrátt fyrir ótvírætt skemmtigildi þá eru pólitísku skilaboðin í sjónvarpsþáttunum 24 gjarnan á ansi tæpu vaði. Málsvarar pyntinga og annarra brota á mannréttindum fólks hljóta að telja handritshöfunda þáttana vera meðal sinna helstu bandamanna. En hvernig í veröldinni skyldi á því standa að þáttastjórnendur fóru skrefinu lengra og ákváðu að gera lögfræðinginn frá mannréttindasamtökunum “Amnesty Global” tortryggilegan. Þar með er ekki aðeins vegið að grundvallarmannréttindum heldur líka þeim sem hafa áhuga á að vernda þau.
En svona er skáldskapurinn. Eða hvað?
Fyrir skemmstu lét Charles D. Stimson, háttsettur maður í Varnarmálaráðuneytinu bandaríska, hafa eftir sér að hann væri hneykslaður á því að stórar lögfræðiskrifstofur í Bandaríkjunum tækju að sér að gæta hagsmuna fanga í Guantanamó. Hann lagði til að einkafyrirtæki hættu að eiga viðskipti við þessar stofur. Þá birti dagblaðið Wall Street Journal lista yfir lögmannsskrifstofur sem tekið hafa að sér að reka mál fyrir fanga á Kúbu. Þarna var kominn visir af svörtum lista – ekki ósvipuðum þeim sem til var í Hollywood á hinu óhugnanlega McCarthy tímabili í sögu Bandaríkjanna, þegar maður var yfirheyrður af lögreglu eftir að heyrst hafði til hans blístra Internationalinn í lyftu í New York.
Meðal stjórnvalda og ýmsra áhrifamanna í Bandaríkjunum nú um stundir er ríkjandi hugarfar ekki ósvipað því og birtist í þáttunum um Jack Bauer. Það endurspeglast í hinum glórulausu ummælum Stimson og óhugnanlegri birtingu virts dagblaðs á lista yfir fyrirtæki sem rækja skyldu sína í samfélagi sem byggist á réttlæti. Meðan þetta hugarfar ríkir kemur helsta ógnin við einstaklingsfrelsi og mannréttindum ekki að utan – heldur innan úr þeim samfélögum sem byggja á þessum dýrmætu gildum.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021