Eini munurinn á milli skatta og dauðans er sá að dauðinn kemur bara einu sinni.
|
Á síðustu 15 árum hafa verið gerðar margar mikilvægar breytingar á skattkerfinu. Skattar á fyrirtæki og einstaklinga hafa lækkað, aðrir skattar felldir á brott, t.a.m. eignaskatturinn, og enn aðrir skattar lækkaðir töluvert eins og erfðafjárskatturinn. Á þessum árum hefur skattur á fyrirtæki lækkað úr um 50% í 18% árið 2002, flatur 10% fjármagnstekjuskattur tekinn upp árið 1997 og tekjuskattur einstaklinga farið stiglækkandi en hann er nú 22,75%. Þessar breytingar hafa öðrum fremur leitt til aukinnar velsældar, batnandi lífskjara allra og blómlegra atvinnulífs. Vilhjálmur Egilsson benti hins vegar á að aðstæður breytast og tíminn líður. Samkeppnishæft skattkerfi er ekki endanlegt fyrirbæri heldur þarfnast það stöðugrar endurskoðunar og breytinga til að mæta þörfum almennings, atvinnulífsins og þróunar erlendis.
Vilhjálmur reifar nokkrar þarfar breytingar á skattkerfinu sem ráðast þarf í og eru þær allar góðra gjalda verðar. Sem dæmi þá er lagt til að leggja af vörugjöld og stimpilgjöld, falla frá skattlagningu söluhagnaðar milli fyrirtækja, leggja af skatt af arði sem móttekinn er erlendis frá sem og að falla frá staðgreiðsluskatti af arði ef greitt er til fyrirtækja í EES ríkjum. Ein athyglisverðasta breytingin sem Vilhjálmur boðar er að skattur á fyrirtæki þyrfti að lækka niður fyrir 15% og gæti 12% skattur verið eðlilegt hlutfall í samhengi. Þegar skattur á fyrirtæki var lækkaður niður í 18% voru skattar hvað lægstir hér á landi í Evrópu og skapaði það landinu talsverða sérstöðu. Nú hafa hins vegar fleiri ríki bæst í hópinn og 18% skattur ekki lengur með því lægsta sem gerist.
Með lækkun skatta á atvinnulífið hafa skatttekjur ríkisins aukist stórlega. Í erindinu kemur fram að skatttekjur ríkissjóðs af tekjuskatti fyrirtækja var árið 2001 9,6 milljarðar þegar skatthlutfallið var 30%. Árið 2006 voru tekjurnar 34,7 milljarðar. Þetta er athyglisvert og sýnir að lækkun skatthlutfallsins leiðir ekki til þess að tekjur ríkisjóðs minni heldur þvert á móti. Á það hefur verið beint að lítil sneið af stórri köku getur verið mun stærri en stór sneið af lítilli köku.
Nú myndu einhverjir malda í móinn, t.d. Morgunblaðið, og segja að það væri ósanngjarnt að lækka bara skatta á „gróðafyrirtæki“ en láta einstaklinga um að greiða mun hærri skatta. Við því er það að segja að stefna skal þá að því að lækka tekjuskatt einstaklinga enn meira en gert hefur verið. Lausnin er ekki eins og sumir hafa haldið fram að hækka eigi fjármagnstekjuskattinn. Í þessari umræðu nefnilega gleymist oft tvennt. Í fyrsta lagi er heildarskattur af hagnaði fyrirtækja 26,2%. Fyrst er greiddur 18% tekjuskattur og svo 10% skattur af arði greiddum út úr fyrirækjum. Skatthlutfall einstaklinga, bæði tekjuskattur og útsvar, að teknu tilliti til skattleysismarka, barnabóta, vaxtabóta og persónuafsláttar, er í kringum 28%. Munurinn á milli fyrirtækja og einstaklinga er ekki alveg eins mikill og sumir vilja halda fram. Í öðru lagi gleymist að auknar skatttekjur ríkissjóðs af atvinnulífinu (vegna lágra skatta) veita enn meira svigrúm til þess að lækka skatta á einstaklinga.
Í þessu samhengi öllu er rétt að hafa í huga að skattkerfið er fyrst og fremst tekjuöflunartæki ríkissjóðs. Það er verulega illa til þess fallið að vera tekjujöfnunartæki. Enda einstaklega vitlaust að reyna á annað borð að jafna tekjur manna með opinberu valdi. Það bara gengur ekki nema náttúrulega allir verða gerðir jafn fátækir og eignalausir. Það væri vissulega jöfnuður í reynd. Hitt er svo annað mál að nýlega hefur verið sýnt fram á að ójöfnuður í samfélaginu hefur ekki aukist heldur þvert á móti eins og lesa má um í nýlegum pistli. Sem tekjuöflunartæki er skattkerfið tiltölulega einfalt í sniðum. En það má einfalda það enn frekar með því að taka upp flatan tekjuskatt. Slíkur skattur er í senn einfaldur og sanngjarn. Ákveðinn prófessor í HÍ myndi þá kannski líka verða eilítið rólegri vitandi það að fólk þyrfti ekki að greiða hærri skatta ef það hækkaði í launum.
Áskorun framkvæmastjóra Samtaka atvinnulífsins er tímabær. Það er nú vonandi að Alþingi taki nú sem allra fyrst af skarið og kveðið upp um að það hyggst halda áfram en ekki fara aftur á bak í skattamálum.
Frétt á heimsíðu SA um erindi Vilhjálms Egilssonar
- Stjórnarhættir sjávarútvegsfyrirtækja - 26. maí 2021
- Dokkan og Ríkið - 18. febrúar 2021
- Villuljós og vinnuleit - 15. desember 2020