Flestir landsmenn urðu nokkuð undrandi nýverið þegar Páll Pétursson félagsmálaráðherra tjáði sig um ástand á leigumarkaði. Hann sagði að leiguverð væri „kjaftað upp” og vísaði því til stuðnings í meðalleiguverð í þinglýstum leigusamningum vegna húsaleigubóta. Þær tölur sem heyrðust af almennum leigumarkaði væru því einhvers konar sögusagnir eða samsæri leigusala til að sprengja upp leiguverð.
Eftirmálar ummæla Páls urðu þónokkrir, því nær allir sem hafa með mál á leigumarkaði stigu fram og sögðu aðra sögu. Tölur Páls eru langt frá raunveruleikanum á leigumarkaði í Reykjavík og nágrenni. Hugsanlega gætu þær verið nærri því sem gengur og gerist á Höllustöðum, en þau Páll og Sigrún dvelja langdvölum í Reykjavík og leigja því líklega út nokkur herbergi fyrir norðan.
Tölur Páls voru byggðar á meðaltölum þinglýstra húsaleigusamninga vegna húsaleigubóta. Í þeim meðaltölum eru allar félagslegar íbúðir, en mikið af dýrari íbúðum vantar. Þær segja því ekkert til um meðalleiguverð á almennum markaði. Flestum þykir það í meira lagi furðulegt að Páll hafi opinberað vanþekkingu sína á leigumarkaðnum með þessum hætti. Hafi haldið því fram að tölurnar sem hann nefndi væri hin rétta leiga og annað væri plat.
Ég tel að Páll hafi ekki sagt þetta vegna vanþekkingar á hinu raunverulega ástandi. Þvert á móti hafi hann ætlað að „kjafta” leiguverð á almennum markaði niður. Mikið var um það rætt í vor og sumar þegar Davíð Oddsson virtist vera að reyna að tala gengið upp og hvort sem það var honum meira eða minna að þakka rættist flest það sem hann sagði og gengið hækkaði. Þetta sama held ég að Páli hafi gengið til. Að fullvissa þjóðina um að ekki sé innistæða fyrir þessu háa leiguverði.
Tilraun Páls er góðra gjalda verð, en raddstyrkur hans í þessu máli er ekki sá sami og forsetisráðherra í efnahagsmálum. Leiðtogi ríkisstjórnarinnar á auðveldara með að telja fólki trú um að hans forsendur séu réttari en þess eigin, hann hefur jú nokkuð mikið um stefnumörkun ríkisstjórnarninnar að gera í efnahagsmálum og ríkisframkvæmdum og getur þannig beitt ýmsum aðferðum til að hafa áhrif á gengið þó Seðlabankanum hafi verið gefið frelsi. Félagsmálaráðuneytið á erfiðara með að beita beinum aðgerðurm til að hafa áhrif á leiguverð. Enda orsakast það fyrst og fremst af skorti á íbúðum og háum vöxtum.
Annað sem stendur lækkun á leiguverði fyrir þrifum er strangt reglugerðaumhverfi. En með tilslökunum er hægt að bjóða fjölbreyttara húsnæði og auðveldara er að sinna sérstökum hópum. Til dæmis er hægt að byggja stúdentagarða á mun hagkvæmari hátt ef hægt væri að slaka á byggingareglugerðum, en nú bíða um 600 stúdentar við Háskóla Íslands eftir að komast í ódýrt leiguhúsnæði Félagsstofnunar stúdenta og þurfa á meðan að leigja dýrum dómum á almennum markaði. Auk þess er undarlegt að það sé talið betra að ríkisvaldið setji reglur um alls kyns atriði er tengjast húsbyggingum eins og hve stórar svalir mega vera á íbúðum.
Á meðan Páll hefur ekki ennþá vald til að ákvarða leiguverð með beinum hætti, ætti hann að einbeita sér að því að rýmka laga- og reglugerðarammann til að auðvelda ungu fólki að koma þaki yfir höfuðið. Það ásamt þrýstingi á sveitarfélög um að úthluta fleiri lóðum með skynsömum hætti og stöðugu efnahagslífi ætti að tryggja lækkun á íbúða- og leiguverði. Ég er efins um það, en vona þó að Páll geri þetta að plani-B.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021