Heimsbyggðin fylgist grannt með Beckham-hjónunum þessa dagana og fyrirhuguðum flutningi þeirra til Los Angeles. Samningurinn sem David Beckham gerði við Los Angeles Galaxy í síðustu viku sýnir svart á hvítu að stórstjörnuímyndin er ráðandi í lífi þeirra hjóna um þessar mundir. Læðist að manni sá grunur að hjónin sjái sjálf um að mata fjölmiðla á frásögnum um eigið líf, enda beið fjöldi ljósmyndara og myndatökumanna á flugvellinum í Los Angeles er Victoria Beckham lenti þar um helgina. Þangað er frúin komin til þess að skoða hús og skóla fyrir börnin.
Ástæður þessa skyndilegu breytinga á högum Beckhams eru skiljanlegar út frá áherslum hjónanna og tilraunum þeirra til að tilheyra hinum ríku og frægu. Nú geta þau búið nær vinum sínum Tom Crusie og Katie Holmes. Hvað Los Angeles Galaxy fær hins vegar út úr þessum samningi er öllu óskiljanlegra. Los Angeles Galaxy er lið í MLS (e. Major League Soccer), toppdeild bandarísku knattspyrnunnar, en þykir langt því frá hið sterkasta í þeirri deild.
Knattspyrnan hefur ávallt átt undir högg að sækja í Bandaríkjunum. Áhorf þar í landi á þessa vinsælustu íþrótt heims kemst ekki nándar nærri áhorfi á körfubolta, hafnarbolta eða amerískan fótbolta. Forsvarsmenn Los Angeles Galaxy virðast trúa því að kaup liðsins á David Beckham leiði til ríkara áhorfs á bandaríska knattspyrnu. Sjálfur fetar Beckham nú í fótspor Pele og George Best, sem báðir spiluðu í Bandaríkjunum undir lok síns ferlis og áttu stærstan þátt í áhorfendaaukningu á bandaríska knattspyrnu á sínum tíma.
Miklar vonir voru bundnar við að áhorfendur færu loksins að skila sér á leiki eftir að Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu var haldin í Bandaríkjunum árið 1994. Miklum fjármunum var eytt í íþróttina og spáð var áhorfendaaukningu um 10-15% á ári. Spárnar hafa ekki gengið eftir og í dag mæta um 15 þúsund áhorfendur á leiki í MLS, sem er sama hlutfall og fyrir áratug. Þá er áhorfið í sjónvarpi einnig slakt.
Meðal þeirra skýringa sem gefnar hafa verið á áhorfendaskorti er að í knattspyrnuleikjum séu mörkin of fá. Leikir endi jafnvel 0-0 ólíkt körfubolta og amerískum fótbolta. Markaleysið fari illa í bandaríska áhorfendur. Þá leita bandarískir knattspyrnuáhugamenn frekar eftir sjónvarpsútsendingum frá almennilegum deildum utan Bandaríkjanna heldur en að horfa á leiki í eigin deild. Standardinn í bandarískri knattspyrnu sé lélegur. Þá reyni hæfileikaríkir og sterkir einstaklingar frekar fyrir sér í öðrum íþróttum.
Þá hefur því verið fleygt að án Bandaríkjamanna af rómönskum ættum væri knattspyrna ekki spiluð í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn af rómönskum ættum hafa hins vegar sjaldnast þótt hafa nægilegt aðdráttarafl hjá auglýsendum. Nokkur lið í MLS hafa þó áttað sig á áhuga þessa hóps og því ráðið til sín spænsk markaðsfyrirtæki og skipulagt leiki við lið frá Mexíkó á næstu misserum.
Það er þó spurning hvort ekki sé um tapaða baráttu að ræða. Knattspyrna komi aldrei til með að ná miklum hæðum í Bandaríkjunum. Næsta víst er að ef vinsældir íþróttarinnar eiga eftir að aukast á næstu árum verði það fjölgun Bandaríkjamanna af rómönskum uppruna að þakka. Hvort koma Beckhams eigi eftir að breyta einhverju þar um er harla ólíklegt. Ólíklegt verður að teljast að Los Angeles Galaxy fái peninganna virði í Beckham.
- Árleg mannekla - 18. september 2007
- Lítilla breytinga að vænta - 5. maí 2007
- Jarðgangagerð, opinber störf og niðurgreiðslur - 17. mars 2007