Á dögum undirritaði Menntamálaráðherra samning um stóraukin fjarframlög til rannsókna við Háskóla Íslands. Þó að efling rannsókna og framhaldsnáms sé nákvæmlega það eina sem hægt og nauðsynlegt er að gera til að bæta stöðu skólans í samanburði við aðra, er alls óvíst að flöt innborgun inn á reikning skólans skili miklu. Eða allavega eins miklu og aðrar aðferðir.
Í grein sem ég skrifaði í fyrra, kom fram að Háskóli Íslands þyrfti að fimmfalda rannsóknarafköst sín fimmfalt til að komast á lista yfir bestu 500 skóla í heimi, svo við tölum nú ekki um topp 100 listann. Þrátt fyrir að alltaf megi afsaka sig með fámenninu, getur það ekki annað en valdið miklum vonbrigðum að hundrað ára gamall háskóli skuli ekki standa betur að vígi.
Það er auðvitað ekki svo staðan hafi verið alslæm. Ef ég lít til dæmis á þær greinar þar sem ég þekki best til, raunvísindin, þá hafa nemendur Háskólans oft staðið sig ágætlega þegar kemur að því að komast í og stunda nám við fremstu skóla heims. HÍ hefur þannig staðið sig sæmilega sem grunnámsstofnun, en varla mikið meira en það, hingað til. Ég varð til dæmis sá fyrsti til að útskrifast með M.S. gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands. Það gerðist í vorið 2005, en stærðfræði hefur verið kennd í Háskólanum í yfir 30 ár. Reyndar heyrði ég kennara eitt sinn segja á fundi að það væri í sjálfu sér hægt að hafa eitthvað mastersprógram fyrir fólkið sem kæmist ekki til útlanda, en að við ættum ekki að fókusera mikið á þetta.
Með slíkum viðhorfum, sem vonandi eru á undanhaldi, mun auðvitað aldrei takast að koma Háskóla Íslands úr startholunum sem rannsóknarháskóla, hvað þá að koma honum í hina margnefndnu „fremstu röð“. Hér kemur að hinni sársaukafullu staðreynd sem starfsfólk Háskólans þarf að horfast í augu við: Ef takast á að koma HÍ í fremstu röð, þarf starfsfólk í fremstu röð og það þýðir að heilmargir núverandi starfsmenn Háskólans munu þurfa að leita sér að annarri vinnu.
Slappt rannsóknarfólk verður ekki betra þótt einhver drekki því í peningum. Því miður vita allir sem þekkja til starfsemi Háskólans að rannsóknarmenn sem ekki hafa birt grein svo áratugum skiptir, og menn sem nota rannsóknarleyfi sem venjuleg leyfi, eru allt of algeng sjón.
Vafalaust mun hin nýtilkomna innspýting fjármagns skila einhverju, vonandi sem mestu, til rannsókna í Háskólanum. Hins vegar hefði mun betra að nota þetta fé í samkeppnissjóði sem allt rannsóknarfólk á landinu gæti keppt um. Það gefur augaleið að peningar sem menn þurfa vinna fyrir eru betur nýttir en peningar sem menn fá gefins. Með því að láta Háskólann keppa um fé við aðra skóla mundum við hvetja hann til að ráða til sín eins hæft rannsóknarfólk og völ er á, því aðeins slíkt fólk mundi tryggja honum stærstan skerf þess rannsóknarfés sem stæði til boða. Með nýgerðum samningi skiptir í raun litlu máli hvaða rannsóknarfólk skólinn mun reyna fá til liðs við sig. Umbunin hefur þegar verið ákveðin.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021