Í dag eru fimm ár liðin frá því að fyrstu fangar Bandaríkjamanna komu til Guantanamo fangelsisins á Kúbu. Frelsissvipting þeirra sem þar er haldið sem óvinveittum vígamönnum er í senn svartur blettur á réttmætri baráttu gegn hryðjuverkum og óþægileg en þörf áminning um að baráttan fyrir frjálsu og opnu samfélagi getur snúist upp í andhverfu sína.
Ekki verður um það deilt að framganga Bandaríkjamanna í Guantanamo er brot á flestum ef ekki öllum alþjóðlegum sáttmálum um vernd mannréttinda. Þótt ekki sé ástæða til að draga í efa að í fangelsinu þar syðra kunni að vera menn sem ekki eiga skilið að strjúka um frjálst höfuð, þá réttlætir það engan veginn áralanga frelsissviptingu þeirra án dóms eða ákæru.
Um þetta eru flestir sammála og jafnvel hörðustu stuðningsmenn harðlínustefnu í baráttunni við hryðjuverkaógnina geta fallist á að Guantanamo-málið sé ljóður á ráði bandarískra stjórnvalda. Hins vegar verður að hafa hugfast Guantanamo er aðeins gróf birtingarmynd þeirrar djúpstæðu breytingar sem orðið hefur á viðhorfi stjórnvalda í vestrænum lýðræðisríkjum eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001.
Stóraukið eftirlit með borgurunum, auknar valdheimildir yfirvalda til að rannsaka og jafnvel halda fólki föngnu vegna gruns um tengsl við hryðjuverkastarfsemi og röskun á öllu daglegu lífi fólks vegna hertra öryggisráðstafana – þetta er stefið í öllum þeim ríkjum sem tilheyra hinu frjálsa og opna vestræna samfélagi.
Það er auðvitað frumskylda ríkisvaldsins að tryggja öryggi borgaranna og því eðlilegt að gripið sé til ráðstafana þegar ástæða er til að ætla að þeim stafi ógn af hugsanlegum hryðjuverkum. Öðru hverju gerist eitthvað sem í huga margra réttlætir þau miklu afskipti ríkisvaldsins af lífi fólks sem að ofan eru rakin, til að mynda þegar leyniþjónustur Bretlands og Bandaríkjanna héldu því fram að tekist hefði að koma í veg fyrir stórfelld hryðjuverk á síðasta ári með markvissu eftirliti og rannsóknarvinnu.
Við slíkar aðstæður verða þær raddir sem tala gegn síauknum valdheimildum stjórnvalda heldur hjáróma. Það er auðvitað ekki hægt að svara málflutningnum sem þá heyrist: „Hefðir þú viljað að þeim hefði tekist að sprengja 2.000 manns í loft upp yfir Atlandshafinu? Ha? Er það sem þið viljið?!“
Því má ekki gleyma að baráttan gegn hryðjuverkum er ekki barátta um landssvæði eða önnur hlutbundin verðmæti. Hún er heldur ekki barátta um heimsyfirráð í hefðbundinni merkingu. Hún er fyrst og fremst barátta fyrir opnu og frjálsu samfélagi, fyrir réttarríki þar sem mannréttindi eru efst á blaði, þar sem ofsatrú og kennisetningar víkja fyrir frjálsum skoðanaskiptum, þar sem einstaklingurinn þarf ekki að búa við ofsóknir yfirvalda.
Í pistli sem undirritaður skrifaði á Deigluna fyrir tæpum fimm árum, 21. janúar 2002, skömmu eftir að fyrstu fangarnir komu til Guantanamo, sagði m.a.: „…þótt ekki dugi nein vettlingatök, þá má baráttan gegn hryðjuverkum ekki valda meira tjóni á vestrænu samfélagi en sjálf barátta hryðjuverkamannanna.“
Við þetta er litlu að bæta, nú fimm árum síðar.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021