Stórfyrirtæki hafa á undanförnum misserum lagt ýmsum góðgerðarmálum lið með rausnarlegum fjárframlögum. Hverjar svo sem ástæður þess eru að stórfyrirtæki eða vel stæðir einstaklingar sjá sér hag í því að gefa til góðgerðarmála þá er það víst að slíkt er til hagsbóta fyrir samfélagið í heild, þar sem góðgerðar- og líknarfélög sinna eðli máls samkvæmt málefnum er varða almannaheill.
Um þau málefni sem góðgerðarfélög sinna gilda sömu reglur og á öðrum sviðum mannlífsins, þeim er almennt betur fyrir komið hjá einkaaðilum eins og góðgerðarfélögum heldur en ríkisvaldinu. Ætla má að fjármunirnir komist hraðar og betur til skila og reksturinn sé í betra horfi en ef sömu málefnum væri sinnt af ríkinu.
Þetta er aðeins ein af mörgum ástæðum þess að rétt er að hlúa að starfsemi og rekstrarumhverfi góðgerðarfélaga. Önnur ástæða er að framlög einkaaðila til góðgerðarmála geta sparað ríkisvaldinu umtalsverða fjármuni, því þau málefni sem góðgerðarfélög sinna eru mörg þess eðlis að ríkisvaldið þyrfti ella að sjá um þau, sem dæmi nefna framlög til menningar og lista, menntunar, heilsu og velferðar.
Hlutverk ríkisvaldsins á því að vera að haga reglunum þannig að hagstætt sé fyrir einstaklinga og fyrirtæki að gefa til líknar- og góðgerðarmála.
Ein mjög einföld og áhrifarík leið til þess er að hækka það hlutfall sem fyrirtæki mega draga frá skattstofni sínum með framlögum og gjöfum til líknar- og góðgerðarmála. Það hlutfall er nú 0,5% af tekjum á því ári sem gjöf er afhent. Það væri ekki einungis mjög einfalt að hækka þetta hlutfall umtalsvert heldur væri vert að athuga hvort slíkar gjafir og framlög geta ekki líka verið frádráttarbær af skatttekjum einstaklinga.
Með því að setja reglur sem hvetja aðila til að taka þátt í góðgerðarmálum mundi ríkið einnig senda þau skilaboð að æskilegt væri að einstaklingar og fyrirtæki tækju markvissari þátt í samfélaginu á þennan hátt.
Hagstætt skattaumhverfi ætti að leiða til þess að fleiri gæfu til góðgerðarmála og meira væri gefið, fjármununum væri betur ráðstafað heldur en úr ríkiskassanum og samfélagsleg ábyrgð og vitund einstaklinga og fyrirtækja ykist.
Afstaða ríkisvaldsins til góðgerðarmála á því, eins og á flestum sviðum samfélagsins, að vera sú að skapa umhverfi sem hvetur einstaklinga og fyrirtæki til að sinna þeim málum sjálft í stað þess að ríkið útdeili til þeirra fjármunum úr sameiginlegum sjóðum.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020