Haustið var tími ósongatsins. Allan tíunda áratuginn var umfjöllun um stærð gatsins sem myndast árlega yfir suðurskautinu fastur liður í fréttatímum ljósvakamiðlanna, sem og öðrum fjölmiðlum. Undanfarin ár hefur hinsvegar lítið farið fyrir þessum fréttum og öll athyglin beinst að gróðurhúsalofttegundum og ýmsum bókunum tengdum þeim. Áður en ósongatið komst í kastljósið var súrt regn aðalhitamálið í umræðu um loftmengun og veðurfar. Þessa dagana fer lítið fyrir umræðu um slíkt.
Hvernig stendur á því að umræðan um loftslagsvandamál gengur yfir í slíkum bylgjum sem raun ber vitni? Er þjóðfélagsumræðan hugsanlega það takmörkuð að hún ber ekki meira en eitt viðfangsefni í hverjum málaflokki? Er bara pláss fyrir eitt loftslagsvandamál, eina styrjöld, eitt efnahagshneyksli, eitt heilbrigðisvandamál og eitt þjáð Afríkuríki á hverjum tíma? Oftar en ekki virðist þetta vera raunin og sömu málin eru tekin fyrir dag eftir dag þar til eitthvað nýtt og meira spennandi gerist, og þá er eins og fyrri vandamál hafi aldrei verið til.
Umræðan um loftslagsmál markast óneitanlega af þessari tilhneigingu til að einblína á eitt mál í einu. En hún er einnig dæmigerð fyrir annað einkenni fjölmiðla. Það er viðleitnin til að fjalla ítarlega um neikvæðar fréttir en eyða minni orku í jákvæðar fréttir. Staðreyndin er nefnilega sú að það er allt gott að frétta af ósongatinu.
Síðasta mánudag voru liðin 15 ár síðan samþykkt var alþjóðleg bókun um losun klórflúorkolefna. Þessi bókun er um margt svipuð Kyoto bókuninni og var undirrituð 16. september 1987 í Montreal. Líkt og Kyoto bókunin byggði hún á nokkrum skrefum. Fyrsta skrefið var að setja þak á losun klórflúorkolefna, og byggðist þakið á útblæstri hvers ríkis árið 1986. Þetta þak skyldi svo lækkað reglubundið þar til losunin yrði bönnuð nema í algerum undantekningartilfellum. Ýmsir urðu til að fjalla um þann gífurlega kostnað sem af þessu hlytist og ályktuðu jafnvel að ísskápar yrðu munaðarvara þar sem staðgenglar klórflúorkolefna voru svo dýrir. Mörg lönd, sér í lagi þróunarlönd, neituðu ennfremur að skrifa undir bókunina. Aðilum bókunarinnar fjölgaði þó hratt, ekki síst vegna pólítísks þrýstings, og um 1990 hafði dregið markvert úr losuninni. Um miðjan tíunda áratuginn byrjaði svo að draga úr heildarmagni efnanna í lofthjúpnum og minnkar það magn nú jafnt og þétt.
Í fyrrahaust bárust þau ánægjulegu tíðindi (sem að sjálfsögðu fóru lágt í fjölmiðlum) að ósongatið lokaðist óvenjusnemma. Í dag er gatið minna en það hefur verið í nokkrum septembermánuði síðustu tíu árin. Enn er of snemmt að segja til um það hvort varanlegur viðsnúningur hafi orðið á stærð ósongatsins, en ástæða er til nokkurrar bjartsýni í þeim efnum. Á fimmtán ára afmæli Montral bókunarinnar er rétt að fagna þeim árangri sem náðst hefur við takmörkun á losun klórflúorkolefna. Góðar fréttir eru líka fréttir.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020