Það er vinsælt áramótaheit að hætta að reykja. Samkvæmt rannsókninni, sem Morgunblaðið vitnar í dag, hefur ríflega fjórðungur Breta srengt þess heit að láta af þeirri iðju. Líklegt er að mismikil alvara sé á bakvið áramótaheitið. Margir eru eflaust komnir vel við skál þegar líður að áramótum, og eins og flestir vita þá er ákaflega einfalt að taka stórar ákvarðanir þegar menn eru búnir að sturta rækilega í sig af áfengi.
Sennilega gerist það víða á breskum knæpum að menn standi upp um miðnætti og lýsi yfir í viðurvist áreiðanlegra votta að þeir muni aldrei aftur reykja – eða jafnvel að þeir séu steinhættir að detta í það. Svo líður á kvöldið og eftir því sem löngunin eftir nikótíninu vex þá aukast efasemdirnar um að áramótaheitið hafi verið skynsamlegt. Svo þegar líður á nóttina fara vinirnir að dangla framan í menn sígarettum og þá má hæglega komast að þeirri niðurstöðu að það hafi bara verið tóm vitleysa að hætta að reykja – hvað þá á gamlárskvöld. Það er svo erfitt að hemja sig þegar mann langar mikið í eitthvað.
Á gamlársdag á Íslandi strengja menn mismunandi heit og ætla sér að standa við þau. Það er til dæmis líklegt að forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna hafi allir saman, eða hver í sínu horni, ákveðið að vera ekki að rífast fyrir framan alþjóð í sjónvarpinu. Það var nú ekki eins og þeir þyrftu á því að halda að bera sundrunguna milli flokkanna á torg, sérstaklega meðan sundrungin innan þeirra er öllum svo augljós.
En þegar mann langar ofboðslega mikið í eitthvað, þá er bara eitthvað svo erfitt að hemja sig.
Og það endaði auðvitað með því í Kryddsíld Stöðvar 2 að formenn vinstri flokkanna færu í hár saman. Þeir voru sannarlega búnir að vera sammála um næstum öll mál. Misskiptingin er slæm, efnahagsstjórnunin er vond, stóriðjan er hryllingur, fátæktin er óbærileg og Íraksstríðið er glæpur.
Þörfin á að sannfæra þjóðina um nauðsyn þess að velferðarstjórn vinstra kaffibandalagsins taki við stjórnartaumum eftir kosningar virtist um hríð vera svo sterk í Kryddsíldinni að þau voru næstum því búin að halda þetta út. En alveg eins og þegar vinirnir á nýársnótt rétta sígarettu í áttina að ofurölvi félaganum sem nýbúinn var að strengja þess heit að hætta að reykja þá þurftu þessir bölvuðu þáttastjórnendur að opna Pandóruboxið þeirra Ingibjargar og Steingríms. „Hvern langar svo að vera forsætisráðherra þegar nýja velferðarstjórnin tekur við?“ var spurt. Þau langar víst bæði svo ofsalega til þess að verða einmitt það – og þar er snöggur blettur.
Af því að þegar mann langar svo ótrúlega mikið til þess að verða eitthvað, þá er svo óskaplega erfitt að hemja sig.
Ingibjörg Sólrún gat ekki setið á sér með að eigna sér skrifstofuna í Stjórnarráðinu þegar hún var spurð – og á meðan sauð á hugsjónapólitíkusnum Steingrími, sem hingað til hefur aldrei verið talin vilja nokkrar vegtyllur aðrar en JC verðlaun fyrir bestu Eldhúsdagsræðuna. Kemur í ljós að Steingrím langar barasta alveg rosalega mikið til þess að verða forsætisráðherra líka!
Það var fróðlegt að sjá hina hamingjusamlegu harmóníu væntanlegrar ríkisstjórnar vinstri manna á gamlársdag. Þar kom berlega í ljós að persónuleg metorðagirnd kann að gera út um möguleika VG og Samfylkingarinnar að starfa saman að loknum kosningum. Það er þakkar vert að kjósendur hafi fengið þennan ágæta forsmekk á ríkisstjórnarfundi vinstri stjórnar.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021