Í síðustu viku var í Fréttablaðinu skoðunarkönnun þar sem í ljós kom að þriðjungur þátttakenda sagði að jólahátíðin ylli sér hugarangri. Þetta kemur ekki á óvart. Aðventan er álagstími hjá mörgum. Það eru miklar væntingar og það eru stórbrotnar kröfur um velheppnaða jólahátíð þar sem allt á að ganga upp. Góður matur og frábærar gjafir. Allir eiga að vera hýrir á brá og enginn fýlupoki má skemma fyrir og spilla jólagleðinni.
Það eru gerðar miklar kröfur og margir kikna nánast undan álaginu og eru því fegnastir þegar þessi viðburður er að baki og sólin fer aftur að hækka á lofti og hversdagurinn tekur við í látleysi sínu og með venjubundin verkefni. Og ekki má gleyma því að margur hefur djúpa und þó dult fari og skuggaskilin verða skörpust í ljósadýrðinni.
Það er auðvelt að hneykslast á öllu því sem gengur á. Öllum þeim umbúðum sem hinum fábrotna en undursamlega boðskap jólanna er pakkað inní. Frásagan um varnarlaust, saklaust barn sem fæddist endur fyrir löngu og óx upp og hafði mikil og varanleg áhrif á fylgjendur sína og allt mannkynið í kjölfarið. Og við eigum að spyrja um erindið. Hvaða erindi við okkur á boðskapur þessa manns sem sögur segja að hafi fæðst í Betlehem endur fyrir löngu.
Hann var maður sinnar tíðar og talaði til hennar – en kjarninn í boðskap hans er með þeim hætti að hann er sístæður og á erindi á öllum öldum. Það eru eilíf sannindi um guð og mann. Þar ber hæst gullna reglan um að allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra – og tvöfalda kærleiksboðorðið um að við eigum að elska Guð og náungann. Í þessum orðum er innifalið allt fagnaðarerindið. Fagnaðarerindið sem bæði gefur og krefur. Gefur trú á góðan Guð sem vill okkur allt það besta og krefur okkur um ábyrgð gagnvart samferðafólki okkar á vegferðinni.
Það er gott að hafa þetta í huga á aðventu og jólum. Við fögnum komu jólanna og þeim góða boðskap sem okkur er fluttur um óttaleysi og frið. Og við eigum að hafa í huga orð skáldsins um að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Íþyngjum ekki fólki eða aukum við hugarangur með kröfum um rétta hegðun eða rétt viðhorf. Horfum í eigin barm og reynum að gleðja og gefa eftir því sem aðstæður leyfa. Það gæti dregið úr hugarangri þeirra sem eru næstir okkur á vegferðinni og þá eigum við og gefum gleðileg jól.
- Jarðnesk trú og/eða himnesk - 23. maí 2021
- Páskadagur árið 2021 - 4. apríl 2021
- Að vesenast á aðventu og jólum - 25. desember 2020