Árið 1262 misstu Íslendingar sjálfstæði sitt er þeir gengu Hákoni gamla Noregskonungi á hönd og staðfest var í Gamla sáttmála. Með þeim gjörningi, sem var “játaður og samþykktur af öllum almúga á Íslandi á Alþingi með lófataki” má einnig segja að fyrsti varnarsamningur Íslands hafi verið gerður. Og nú ber svo við að annar varnarsáttmáli við Norðmenn er í undirbúningi og þó svo að ekki standi til að ganga Hákoni krónprins á hönd í þetta skiptið er ekki úr vegi að nema staðar og velta fyrir sér hvert stefni í varnarsáttmálagjörðum þjóðarinnar.
Það kom pistlahöfundi nokkuð spánskt fyrir sjónir um daginn að lesa frétt þess efnis að hafnar væru varnarviðræður við Norðmenn. Fyrir utan þá nýhet að Norðmenn væru burðug herþjóð stóð undirritaður í þeirri trú að við hefðum nýlokið við rándýran samning við Bandaríkjamenn. En það kom á daginn að sá sáttmáli var “hriplekur” í orðsins fyllstu merkingu og að hann gilti bara á stríðstímum. Sem er reyndar nokkuð sérstakt því undirritaður taldi að við hefðum þegar slíkan samning við Bandaríkjamenn undir höndum í gegnum NATÓ sáttmálann (5 grein:…árás á eina þjóð er árás á allar þjóðir) og að ekki væri þörf á öðrum. En með tvo slíka sáttmála hljótum við þá að minnsta kosti að vera vel vörð á stríðstímum, en auðvitað ekki á “friðartímum”?
Þá snúum við okkur auðvitað fyrst til þeirra þar sem hæg eru heimatökin , Noregs. Enda rakið að varnarsamningur við heimsveldið Noreg muni styrkja stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna, umsókn Íslands um sæti í öryggisráðinu, samningstöðu í deilum yfir hafsvæðum og fiskkvótaúthlutunum og fleira. Of ef ekki nást nógu góðir (ergo: ódýrir) samningar við Norðmenn og þá má alltaf bjóðum Dönum upp í dans, aftur, en formlegar varnarviðræður hófust víst við Dani í gær.
Guð sé mér hollr, ef ek satt segi, gramr ef ek lýg.
Það er skoðun pistlahöfundar að Ísland geti ekki stöðu sinnar á alþjóðavettvangi vegna gert varnarsamning við aðrar smáþjóðir, nema um hrein kaup á þjónustu sé að ræða. Það eina rétta sem hægt er gera í stöðunni, ef eitthvað þarf að gera yfirleitt, er að hefja varnarviðræður við NATÓ og fyrir þann sáttmála þarf að greiða. Ef einhver vill bjóðast til þess að verja landið endurgjaldslaust eru hagsmunir sá hins sama varhugaverðir.
Hingað til hefur sú regla gilt innan NATÓ að kostnaður myndast þar sem hann fellur til og Ísland hefur sloppið vel þegar kemur að því að greiða fyrir einstakar aðgerðir bandalagsins. Nú eru hins vegar uppi raddir um breytingar innan NATÓ á þá leið að allar bandalagsþjóðirnar fari að greiða í sjóði bandalagsins til að fjármagna aðgerðir og jafnframt að komið verði upp sérstökum öryggissveitum bandalagsins sem hægt væri að kalla út með skömmum fyrirvara. Ísland gæti ýtt undir þessa þróun og óskað eftir formlegum viðræðum við NATÓ um varnir landsins. Riga ráðstefnan hefði verið frábært tækifæri til þess arna og er það miður að varnarmálaráðherra landsins hafi ekki verið í íslensku sendinefndinni í stað norska armsins, því hann hefði sannarlega geta leitt þær viðræður. En það er alls ekki um seinan að taka upp viðræður við NATÓ og ef að veruleika yrði má leiða að því líkum að staða Íslands í samfélagi þjóðanna hafi aldrei verið sterkari. Enda eiga höfuðstöðvar bandalagsins auðvitað heima hér og hvergi annars staðar.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009