Hugtakið sjálfbær þróun eða ‘sustainable development’ er ekki mjög gamalt, þótt vissulega sé inntakið reginfornt. Og í raun er það fólgið í ákveðinni líffræðilegri frumreglu. Frumreglunni um viðhald tegundarinnar. Að það séu sameiginlegir hagsmunir mannsins að búa þannig um hnútana að sú kynslóð sem lifir hverju sinni uppfylli eigin þarfir án þess að rýra möguleika komandi kynslóða til að uppfylla sínar eigin.
Þetta er jafnframt megininntakið í skilgreiningu Brundtland-nefndarinnar á hugtakinu sjálfbær þróun og birtist fyrst í skýrslu hennar Vor sameiginleg framtíð eða ‘Our Common Future’. Hún var gefin út af Sameinuðu þjóðunum árið 1987 og samkvæmt tilskipun þeirra frá árinu 1983.
Allt frá því að nefndin skilaði af skýrslunni – og ekki síst í kjölfar ákveðinna vatnaskila sem urðu með hinni svokölluðu Ríóyfirlýsingu á Ríó-ráðstefnunni árið 1992 – þá hefur sjálfbær þróun fikrað sig af jaðrinum og inn í kjarna framþróunar á mörgum sviðum vísindanna. Augljóslega var það – til að byrja með – einna mest á sviði umhverfis- og náttúruverndar. En það er breytt í dag. Sjálfbær þróun virðist vera að þróast býsna hratt í átt til þess að geta talist vera skynsöm heildræn umgjörð fyrir mannlega hegðun, ekki einungis gagnvart umhverfinu og náttúrunni, heldur líka náunganum og samfélaginu.
Í því samhengi er í dag talað um þrjár burðarása sjálfbærrar þróunar. Þeir eru: skynsöm nýtingu náttúruauðlindna; samfélagslegt réttlæti og efnahagsleg framþróun.
Umhverfismál hafa lengi verið einkennandi fyrir róttækni á vinstri arm stjórnmálanna. Hjá þeim hluta einstaklinganna sem hafa djúpa samfélagslega og siðferðisleg meðvitund. Fólki sem lætur stjórnast af slíkum hvötum til jafns eða jafnvel mun meira en hagræna hvata og er tilbúið til að hefta frelsi annarra í þágu eigin hugsjóna og hvata.
Það er hins vegar er mjög athyglisvert að skyggnast á bak við hugmyndafræðina um sjálfbæra þróun – og þrjár meginstoðir hennar – með tilliti til pólitískrar hugmyndafræði. Því það er nánast ekkert sem telja má til vinstrisinnaðrar hugmyndafræði á bak við neina þeirra. Þvert á móti skín þar í gegn ákall um einstaklingsfrelsi, mannréttindi og félagslegt réttlæti. Í skilgreiningum nokkurra þeirra virtustu samtaka – sem hafa sjálfbæra þróun sem viðfangsefni – er iðulega að finna nútímalega markaðs- og frjálshyggju. Og þá yfirleitt í þá veruna að félagslegu réttlæti sé best tryggt með efnahagslegu frelsi. Að umhverfisvernd verði fyrst raunsæ, skilvirk og réttlát þegar frjálsir markaðskraftar séu virkjaðir til að verðleggja rétt þær auðlindir sem nýttar eru af manninum. Að frjáls markaður sé rétti vettvangurinn til að innleiða úthrif mannlegrar hegðunar (þ.e. þvingaða afhendingu gæða til handa nokkurra útvaldra á kostnað heildarinnar) á náungann og umhverfið.
Sem dæmi má hér nefna megininntak í efnahagslegri hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar samkvæmt International Institute for Sustainable Development, alþjóðlegrar stofnunar sem helgar sig framþróun sjálbærrar þróunar hjá þróuðum jafnt sem vanþróuðum þjóðum. Bein tilvitnun á ensku: „Philosophy: People must have the freedom to achieve what they value; Human well-being and poverty: Well-being isn’t about wealth. It’s about having capabilities, i.e., the ability to be healthy, educated and secure; Integrated Assessment: Only through integrated assessment can we begin to inform policy-makers, in a constructive and meaningful manner, of the links between ecosystem services and human development“. Með öðrum orðum þá byggir sjálfbær þróun á því að einstaklingnum beri að hafa fullkomið frelsi til að leita eftir þeim gæðum sem hann metur. Að félagsleg velferð snúist ekki um fjárhagslegan auð, heldur getu og tækifæri. Getu til að viðhalda eigin heilsu, til að mennta sig og vera öruggur.
Annað dæmi kemur frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og þeirri deild sem rannsakar sjálfbæra þróun. Þar skilgreinir hún sjálfbæra þróun út frá hagræðilegum viðmiðum með eftirfarandi hætti: „Sustainable development can be defined in technical terms as a development path along which the maximisation of human well-being for today’s generations does not lead to declines in future well-being. Attaining this path requires eliminating those negative externalities that are responsible for natural resource depletion and environmental degradation. It also requires securing those public goods that are essential for economic development to last, such as those provided by well-functioning ecosystems, a healthy environment and a cohesive society“. OECD tilgreinir þannig með beinum orðum að besta leiðin til að ná fram hinu sameiginlega markmiði um skynsama nýtingu auðlinda og úthrifa þeirra sé í gegnum nútímalega markaðshyggju. Að með því að greina neikvæð ytri áhrif mannlegrar hegðunar á umhverfi sitt og náungann megi betur verðleggja þau út frá forsendum markaðarins og þeim gildum og viðmiðum sem hann lætur mótast af.
Önnur athyglisverð dæmi má finna um tengsl milli nútímalegrar frjáls- og markaðshyggju og sjálfbærrar þróunar þegar kemur að ákvarðanatöku og umfangi hins opinbera í mótun samfélagslegrar umgjarðar. Sjálfbær þróun gengur nefnilega að mörgu leyti út frá þeirri forsendu að mannlegt samfélag sé aðlögunarhæft flækjukerfi (complex adaptive system). Kerfi, þar sem engin leið sé fyrir fáeina útvalda að sjá fyrir óskir og þarfir þeirra einstaklinga sem samfélagið myndar svo vel sé, sama hversu vel upplýstir þeir telja sig vera. Í því skyni er mælt með eins mikilli dreifingu ákvörðunarvalds til handa einstaklingnum og mögulegt er. Deild Sameinuðu þjóðanna er sinnir sjálfbærri þróun segir t.a.m.: „[…] in sustainable development, everyone is a user and provider of information considered in the broad sense. That includes data, information, experience and knowledge. The need for information arises at all levels, from that of senior decision-maker at the national and international levels to the grass-roots and individual levels“. Með öðrum orðum þá verði að taka tillit til þess að hagsmunaaðilar og notendur búi ætíð yfir verðmætum upplýsingum á öllum sviðum mannlegrar tilveru. Upplýsingum sem mikilvægt er að virkja til að móta frjálsan markað og lögmál hans.
Í heildina litið þá er sjálfbær þróun mikið til boðberi frelsis og lágmörkun allra utanaðkomandi afskipta af markaðnum. Boðberi mannréttinda, jafnréttis og jafnra tækifæra. Sjálfbær þróun felur einnig í sé að eina rökrétta leiðin að skilvirkri og raunverulegri umhverfisvernd, rökréttri mótun samfélagslegrar umgjarðar og heilbrigðrar efnahagslegrar framþróunar sé í gegn um lærdómsferli þeirra einstaklinga sem samfélagið mynda og á þeim forsendum sem þeir kjósa sér hverju sinni. Framþróun á forsendum botnsins og grasrótarinnar. Ekki toppsins og þess opinbera bákns sem það krefst. Það krefst hins vegar þess að markaðurinn sé vel upplýstur og að markvisst sé unnið að því að verðleggja eins vel og auðið er þær auðlindir og afurðir mannlegrar hegðunar sem hugsanlega hafa áhrif á umhverfið og náungann.
Í stjórnmálalegu tilliti er umhverfisvernd og sjálfbær þróun því allra síst eitthvað sem rökrétt er að staðsetja á vinstri vængnum. Eins og sést hér að ofan er það í raun í hróplegu ósamræmi við helstu kennisetningar sjálfbærrar þróunar. Það má því til sanns vegar færa að á Íslandi – og jafnvel víðar – sé geysilegt tækifæri sé fyrir frjáls- og markaðshyggju að bjóða umhverfisvernd og sjálfbæra þróun velkomna þangað sem hún á réttilega heima.
Helsti stuðningur:
International Institute for Sustainable Development
National Strategies for Sustainable Development
OECD, Policy Brief: Sustainable development: Critical issues
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021