Móðurinn í dag er að ræða um minnkandi jöfnuð, vaxandi ójöfnuð, óréttláta tekjuskiptingu og þar fram eftir götunum. En hver er hin raunverulega meinsemd? Er það að fleiri séu orðnir ríkir og þar með eykst ójöfnuðurinn og það er vont eða er það að fleiri séu orðnir fátækir og þar með eykst ójöfnuðurinn og það er vont. Það er ekkert sem bendir til þess að fleiri séu fátækir hér á landi heldur en fyrir nokkrum árum síðan eða fyrir 5, 10 eða 20 árum. Þvert á móti. Meinsemdin hlýtur því að vera að fleiri séu orðnir ríkir og þaðan sé hin aukni ójöfnuður sprottinn og það sé vont. Eftir því sem fleiri verða ríkir og nokkrir verða rosalega ríkir þeim mun meiri verður ójöfnuðurinn í samfélaginu. Það þýðir hins vegar ekki endilega að hinir fátæku hafi ekki orðið ríkari líka.
Það kemur mér alltaf spánskt fyrir sjónir að það sé eitthvað slæmt við það að einhverjum farnist betur heldur en öðrum. Það er ekki laust við það að þessi „jafnaðaráhersla“ beri keim af einhvers konar afbrýðisemi. Að meðaljónarnir og hinir fátæku mundu vera hamingjusamari ef það væru ekki einhverjir sem ættu rosalega mikinn pening. Svona rétt eins og við séum öll 6 ára og verðum fúl ef leikfélaginn á flottara dót en við hin. En það er eitthvað bogið við þá mynd. Það er í eðli sínu ekkert slæmt við það að til séu einstaklingar sem eiga miklu meiri pening heldur en hinir. Svo framarlega sem hinir ríku hafi efnast innan ramma laganna og að lagaramminn gefi öllum sömu tækifæri þá er ekkert óeðlilegt eða óréttlátt við það að hluti þjóðarinnar verði mjög ríkur og að þar með aukist ójöfnuðurinn. Meðaljóninn verður ekkert hamingjusamari við það að einhver annar eigi minni peninga.
Stefnan hlýtur að eiga að vera að gera hina fátæku ríkari og betur setta í öllu tilliti. Stefnan hýtur að eiga að vera að allir eigi að hafa jöfn tækifæri, alveg sama til hvaða fjölskyldu þeir fæðast. Það er svo hvers og eins að spila úr þeim spilum sem honum eru gefin. Sé það markmið einhvers í lífinu að verða ríkur á hann að hafa tækifæri til þess, sé það markmið einhvers að sinna umönnunar- eða kennslustörfum þá á hann að hafa tækifæri til þess og tækifæri til að geta lifað af þeim störfum.
Væri ekki nær að beina sjónum að raunverulegum vandamálum svo sem hvernig koma megi hlutunum þannig fyrir að allir geti lifað mannsæmandi lífi af vinnu sinni og að samfélagið hlaupi undir bagga með þeim sem ekki geta séð sjálfum sér farboða í stað þess að argast út í vaxandi „ójöfnuð“ eins og það sé vandamál í sjálfu sér.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020