Núna er desember rúmlega hálfnaður og prófatörnin langt komin hjá flestum sem þurfa að sitja sveittir við lestur í þessum jólamánuði. Það virðist fátt leiðinlegra en að læra meðan á þessum tíma stendur. Einhvern veginn er allt annað meira spennandi og kannast væntanlega ófáir við það að láta sig dreyma um að baka piparkökur, hlusta á jólalög og pakka inn gjöfum og jafnvel að taka til og þrífa.
Dagarnir yfir prófatímann eru langir og strangir. Maður er áberandi myglaður og sjúskaður þar sem andlegt ástand manns færist yfir á líkamann og bólur spretta fram og hárið verður óviðráðanlegt. Allt er ómögulegt og það virðist svo voðalega langt í að þessi blessuðu próf verði búin. En af hverju er þessi tími alltaf svona óskaplega leiðinlegur?
Kannski er þetta svona erfitt því að prófin eru á þeim tíma þegar eitthvað skemmtilegt bíður handan við hornið. Í jólaprófum bíður jólaundirbúningur og auðvitað jólin sjálf og á vorin bíður sumarið handan við hornið.
Ein aðalástæðan fyrir þessum mikla leiða sem fylgir prófum held ég að sé ekki sú að námsefnið sé eitthvað leiðinlegt. Allavega er ég í mjög skemmtilegu námi, en veigra mér samt við það að setjast niður og læra. Frekar held ég að það sé sú staðreynd að þá koma fram allar syndir manns í náminu.
Þá bítur maður í það súra epli að uppskera nákvæmlega eins og maður hefur sáð, sem oftar en ekki er ansi lítilfjörlegt. Því lendir maður oft í þeirri klemmu að þurfa að frumlesa stóran hluta námsefnisins. Hver þekkir það ekki að bölva sjálfum sér nokkrum dögum fyrir próf fyrir að hafa ekki sinnt náminu meira.
En í þessum mikla lestri kemst maður oft að því að námsefnið er ekki eins leiðinlegt og maður hefði haldið. Maður fer að kannast við það sem kennarinn var að tala um í tímum og óskar þess að maður hefði lært betur fyrir tímana og notið þeirra því mun meira.
Í upphafi hverrar annar lofar maður sjálfum sér því að vera duglegri á þeirri önn og lenda ekki í því að vera illa undirbúinn þegar kemur að prófatörninni. En einhvern veginn vill þetta loforð oft gleymast og lenda undir þegar skemmtanalíf og félagsstarf herja á.
En nú er þessari önn lokið og enn einni prófatörninni. Núna mega jólin koma og allt sem þeim fylgir. Loksins er hægt að fara að taka til og þrífa, sem maður hlakkaði í alvöru til að gera. Þó það sé nú reyndar ekki eins spennandi svona þegar prófin eru í alvöru búin. En framundan er langt og gott jólafrí sem vonandi nýtist vel til að slaka á og hlaða batteríin. Skammt undan eru svo áramótin, ný önn og ný loforð.
Spurning um að reyna svo að standa við stóru orðin á árinu 2007.
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021