Með því að takmarka möguleika fólks til að styðja stjórnmálaflokka, en auka um leið stuðning frá ríkinu, hafa núverandi þingflokkar reist varnarmúr um eigin hagsmuni.
|
Íslendingar geta verið því fegnir að Alþingi Íslendinga er ekki að jafnaði eins afkastamikið og síðustu daga fyrir þinghlé. Þá rúlla í gegn tugir þingmála og verða að lögum. Að sumu leyti er þetta ekki óeðlilegt fyrirkomulag enda afgreiðslufundir sem slíkir eðlilegur þáttur í starfsemi þingsins.
Það sem hins vegar er hættulegt við afgreiðslufundi og flýtimeðferðir í þinginu er sú staðreynd að þar sé ekki bara verið að reka smiðshöggið á fjölda vel undirbúinna mála sem búið er að ræða í þaula. Ítrekað kemur þar einnig fyrir að tekin eru fyrir mjög stór mál og þeim flýtt í gegn án umræðu – og á það sérstaklega við um mál þar sem umræðan er talin óþörf þar sem helstu stjórnmálaforingjar landsins hafa þegar komið sér saman um niðurstöðuna.
Þetta gerðist til að mynda í eftirlaunamálinu svonefnda. Þá höfðu formenn flokkanna sammælst um tiltekna niðurstöðu og því gátu þeir gefið sér að niðurstaða málsins væri ekki í tvísýnu sama hvort sérstaklega yrði um það rætt í þinginu eða ekki. Eins og allir muna kom í ljós að ekki var öll þjóðin jafn glöð með þá sáttagjörð eins og þingmennirnir sjálfir sem málið varðaði. Vera má að sú tilhneiging sé meðal þingmanna að telja að mál hljóti að vera útrædd ef sæmileg sátt næst í þeirra eigin hópi – enda séu þeir svo fínskorin þverskurður samfélagsins að allur hugsanlegur ágreiningur samfélagsins rúminst meðal þeirra hóps og innan veggja þingsins.
Þessir þingmenn eiga því ágætt lag með að komast að sannkallaðri þjóðarsátt um mál sem varða þá sjálfa og horfa sjálfum sér til heilla.
Þetta tókst þeim nýverið með frumvarpi um fjármál stjórnmálaflokkanna. Þar voru allir sammála um að setja þyrfti einhverjar reglur – en eins og stundum vill verða þá breytist sátt í að setja skuli „einhverjar reglur“ fljótlega í sátt um að setja frekar vondar reglur, þar sem helstu jaðarskilyrði sáttarinnar felast í því hvað sé heppilegast fyrir hina sáttfúsu þingmenn.
Frumvarpið felur í sér stóraukna styrki ríkisins til starfandi stjórnmálaflokka en um leið eru reistar skorður við möguleikum þeirra til þess að afla sér fjár með frjálsum framlögum frá einstaklingum og lögaðilum. Vitaskuld hafa flokkarnir talið að með þessu væri verið að komast að eðlilegri niðurstöðu – þeir yrðu ekki fyrir beinum fjárhagslegum skaða því ríkið bætir upp það sem þeir missa af í frjálsum framlögum. Í augum flokkanna virðist þetta algjörlega skaðlaus lausn þar sem fjárhagslegir hagsmunir flokkanna eru tryggðir en jafnframt losna þeir undan því að þurfa að safna þeim sjálfir.
Stjórnmálaflokkarnir eru því orðnir eins og Ríkisútvarpið, að því leyti að þeim eru tryggð örugg framlög óháð því hvort fólk hefur áhuga á að þeir séu starfræktir eða ekki. Að sama skapi þurfa flokkar, sem ekki eiga sæti á þingi, að keppa gegn niðurgreiddum samkeppnisaðila, sem í ofanálag hefur sett takmarkanir við tekjuöflun þeirra.
Nú er það spurning hvort ríkisvaldið geti, í krafti þeirrar yfirburðastöðu sem það hefur veitt núverandi flokkum, gert kröfur á hendur flokkunum. RÚV þarf til að mynda að uppfylla ákveðnar reglur og næsta skref í löggjöf um fjármál stjórnmálaflokka gæti falist í einhvers konar skilyrðingu á fjárframlaginu – sem þingmenn munu væntanlega geta komið sér saman um í fullkominni sátt við sjálfa sig. Ef allir þingmenn samþykkja slíkt þá getur það varla verið andstætt lýðræðinu?
Atvinnustjórnmálamenn fóru villur vegar á síðustu dögum þingsins. Þeir rugluðu saman hagsmunum sínum og lýðræðisins og töldu að þeir hlytu að fara saman. Þessu er hins vegar þveröfugt farið. Hagsmunir lýðræðisins felast nefnilega einmitt í því að atvinnuöryggi þingmanna sé sem minnst og að flokkar þurfi stöðugt að vinna málum sínum stuðnings til þess að einhver hafi áhuga á því að styrkja þá – hvort sem er með atkvæði, málafylgju eða fjárútlátum.
Aðeins þrír þingmenn, þeir Birgir Ármannsson, Einar Oddur Kristjánsson og Sigurður Kári Kristjánsson studdu ekki frumvarpið og eiga þeir hrós fyrir að standast félagslegan þrýsting annarra þingmanna í þessu máli.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021