68 hipparnir eru eins og Pandabirnir: krúttlegir á mynd en stórhættulegir ef þú hleypir þeim of nálægt þér
|
68 kynslóðin, sem leiðtogar flestra stjórnmálaflokka í dag tilheyra, er bæði í senn dekraðasta kynslóð sögunnar og um leið mesta afturhald framfaramála fyrir ungt fólk í landinu. Í stað frjálslyndu ástsjúku hippana sem fengu afslátt af öllu er nú komin þröngsýnn þrýstihópur sem blóðmjólkar markvisst ungt fólk til að borga mistök og syndir sínar.
„Verðbólga“ var vinsælt fyrirbæri í þjóðfélaginu þegar 68 liðið byrjaði að skríða (með blússandi höfuðverk eftir taumlaus partý sjöunda áratugsins) úr foreldrahúsum. Verðbólgan gerði það að verkum að húsnæðislánin þeirra hurfu eins og dögg fyrir sólu og brátt áttu allir eigið húsnæði. En húsin voru ekki ókeypis. Foreldrar 68 kynslóðarinnar borguðu þessar framkvæmdir með sparipeningnum sínum sem lá óhreyfður inni á bankabók og glataði verðgildi sínu.
Ungt fólk í dag þarf að kaupa rándýrt húsnæði eftir mestu verðsprengju sem sést hefur í fasteignum á Íslandi. Lánin í dag eru síðan bundin „verðtryggingu“ sem tryggir að lán ungs fólks munu fylgja því til æviloka (og börnum þeirra eftir það). Seljendur fasteignanna er 68 kynslóðin sem selur okkur húsin sín á uppsprengdu verði og kaupir sér síðan íbúð á Spáni fyrir hagnaðinn. Sama liðið tekur síðan sérstaklega fram að foreldrar sínir hafi ekkert hjálpað sér við að koma sér upp húsnæði (!?)
Það eru til stjórnmálamenn á landinu (af 68 kynslóðinni) sem hafa barist hatrammlega gegn því að ungt fólk sem vinnur nótt og dag til að borga niður yfirdráttalán, námslán og íbúðarlán (af rándýru íbúðinni) og borgar öðrum meira í velferðarkerfið (hátekjuskattur) geti fengið 1% launahækkun í formi lægri skatta. Ástæðan fyrir þessu er að við megum ekki orsaka verðbólgu. Af hverju þarf ungt fólk eitt og sér að taka á sig þjáninguna fyrir eyðslufyllerí ríkissjóðs? Hvað gerðum við?
Ungt fólk borgar skattana, það borgar 24% yfirdráttavextina, en má ekki fá 1% skattalækkun vegna þess að þau eru „auðjöfrar“ og það er kominn tími til að bæta hag aldraðra, aftur! Hvað hefur ungt fólk gert þessum stjórnmálamönnum til að skapa þetta hatur þeirra á ungu menntuðu fólki? Verið dugleg í skóla, menntað okkur og sóst eftir vel borguðum störfum? Eigum við að skammast okkar fyrir þetta? Ögmundur?
Toppurinn á ísjakanum var væntanlega þegar Ögmundur Jónasson stakk upp á því að fjarlæga vinnuveitanda mörg þúsund ungra vel menntaðra íslendinga úr landi. Bankana sem eru að borga á þessu ári fimmtán milljarða í sameiginlega sjóði landsmanna. Skatttekjur af slíkum fyrirtækjum má nota til að lækka skatta og gjöld á alla landsmenn en það má víst ekki.
Af hverju ræðst 68 kynslóðin í stjórnmálum alltaf á ungt duglegt fólk? Svarið er tvíþætt. Í fyrsta lagi þá eru stjórnmálamenn einfaldlega sjálfhverfir og munu því taka ákvarðanir sem koma þeim og jafnöldrum sínum vel. Í öðru lagi þá hlýða stjórnmálamenn ávallt háværustu röddunum. Þeir hlusta á þá þjóðfélagshópa sem öskra og væla hvað mest (stunduð kallað “Aktívismi” og sagt vera jákvætt). Þess vegna geta litlir háværir hópar fengið sínum kröfum framfylgt vegna þess að kostnaðurinn við að gleðja þá er lítill miðað við að bæta hag allra landsmanna. Þar sem ungt fólk vælir ekki mikið, heldur segir lítið og vinnur mikið, þá vill enginn lækka skattana þeirra!
Fyrir tveimur vikum stöðvaði fjármálaráðherra á síðustu stundu lög sem hefðu hækkað verð á ódýru áfengi (áfengi ungs fólks) um allt að 20% en hinsvegar lækkað verð á snobbáfengi hinnar ofdekruðu 68 kynslóðar um 10%.
Það er þögull varnarhringur 68 kynslóðarinnar sem kæfir síendurtekið lagafrumvarp um að leyfa sölu á bjór og léttvíni í verslunum. Allt ungt fólk á þingi styður þetta frumvarp.
Í síðustu viku ákvað 68 kynslóðin í einhverjum mestu eyðslufjárlögum sem sést hafa, að sá þrýstihópur sem ætti að taka á sig höggið fyrir verðbólguna væri ungt fólk og skar niður framlög til Lánasjóðs Íslenskra Námsmanna.
Gleymið þessum ellilífeyrisþegaflokki, hvar er flokkur sem berst fyrir rétti ungs fólks?
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021